Forvarnastarf gegn sjálfsvígum

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:32:28 (5304)

2001-03-07 14:32:28# 126. lþ. 84.3 fundur 437. mál: #A forvarnastarf gegn sjálfsvígum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég tek undir það að verið er að gera mjög margt gott í þessum efnum. Ég nefni alveg sérstaklega geðræktarverkefnið og sömuleiðis verður áhugavert að sjá skýrslu landlæknis þegar hún verður kynnt eftir tvo daga.

Vissulega þurfa margir að koma að þessu verkefni og ekki síst heilsugæslan og auka þarf forvarnir í áfengis- og fíkniefnamálum. Ég spurði hæstv. ráðherra út í afstöðu hennar til neyðarlínu en það er það sem flestar þjóðir eru með í þessu tilliti og benti á að þarna vantar launakostnað og geðræktarverkefnið er tilbúið að taka þetta að sér.

Komið er að aðgerðum. Mikið hefur verið rannsakað og það sýnir sig að ásóknin í símann hjá Geðhjálp og Geðrækt kallar á að farið sé að sinna þessari neyðarlínu með þjónustu fagfólks. Við getum líka litið til annarra þjóða sem hafa náð langt í rannsóknum í þessum efnum, ég nefni Breta, Bandaríkjamenn og Ástrali, og við þurfum ekki kannski að finna upp hjólið hér. Ég nefni sem dæmi að víða annars staðar, t.d. í framhaldsskólum, er verið að kenna ungmennum að þekkja einkenni hjá ungu fólki sem er í þessum hugleiðingum. Sömuleiðis hafa menn t.d. í Ástralíu verið að kenna fjölmiðlafólki hvernig á að fjalla um þessi mál en þar hafa þessar þjóðir náð góðum árangri því að umfjöllun getur verið skaðleg og ýtt undir sjálfsvíg en umræðan er nauðsynleg til þess að hægt sé að takast á við vandann.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hver er afstaða hennar til þess að koma á fót neyðarlínu? Einkafyrirtæki er tilbúið að greiða hluta af símakostnaðinum, Geðrækt er tilbúin að fara í verkefnið, það væri hægt að gera það í samstarfi við heilsugæsustöðvar, við heilbrigðisþjónustuna. Það vantar starfsfólk í þetta verkefni. Ég spyr hæstv. ráðherra um leið og ég þakka fyrir svörin hér á undan: Hver er hennar afstaða til þeirrar þjónustu sem menn eru tilbúnir að koma á laggirnar sem er neyðarsímsvörunin?