Umönnunargreiðslur vegna hjartveikra barna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:45:16 (5308)

2001-03-07 14:45:16# 126. lþ. 84.4 fundur 473. mál: #A umönnunargreiðslur vegna hjartveikra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þessi fyrirspurn fjallar um réttindi langveikra barna. Hér hefur verið samþykkt stefnumótun á Alþingi um réttarstöðu og réttindi veikra barna sem ríkisstjórnin og undir forustu hæstv. heilbrrh. að því er ég best veit hefur verið að undirbúa að hrinda í framkvæmd. Eiga réttindi langveikra barna að vera þau sömu og réttindi fatlaðra barna og taka mið af löggjöf um það efni.

Ég vil spyrja hvað líður því að hrinda þessu í framkvæmd. Eiga langveik börn sömu réttindi og fötluð börn nú og hvaða fjármagn hefur verið sett til að bæta stöðu langveikra barna frá því að þessi stefnumótun var gerð? Liggur fyrir einhver stefnumörkun af hendi ríkisstjórnarinnar að því er varðar fjármagn til að bæta réttarstöðu langveikra barna sem þarf að gera á mörgum sviðum og í samræmi við þau réttindi sem fötluð börn hafa?