Forvarnir

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:10:44 (5320)

2001-03-07 15:10:44# 126. lþ. 84.6 fundur 508. mál: #A forvarnir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka sérstaklega fyrir þessa fyrirspurn. Ég er alveg sammála hv. þm. að það er rétt að ræða einmitt þessi mál á rólegum tímum. Ef við tökum forvarnirnar eins og þær koma fyrir, þá var Forvarnasjóður settur á laggirnar 1995 og er á vegum áfengis- og vímuvarnaráðs í dag. Tóbaksvarnanefnd er miklu eldri. Ætli tóbaksvarnanefnd sé ekki í kringum 30 ára gömul stofnun. Þarna var því um tvær ólíkar stofnanir að ræða þó að þær séu náttúrlega að keppa að sama markmiði. Og þegar áfengis- og vímuvarnaráð var stofnað fannst mér ekki rétt að steypa tóbaksvarnanefnd með vegna þess að við höfum afskaplega góða reynsu af tóbaksvarnanefnd og við vildum fyrst fá reynslu af áfengis- og vímuvarnaráði. Nú höfum við fengið þessa reynslu og hún er góð, og því teljum við tímabært að steypa þessu saman.

Ég tek sem dæmi um hve við höfum góða reynslu af tóbaksvarnanefnd, sem hefur unnið mjög náið með Krabbameinsfélaginu, að í kringum 1985 reyktu 40% Íslendinga en í dag reykja um 24% Íslendinga. Árið 1996 var þessi tala um 30%, þannig að þarna sjáum við mjög góðan árangur. Við erum með forvarnir á svo geysilega mörgum sviðum og okkur ber að vinna betur saman, alveg sama hvort við erum að tala um heilsueflingu, slysavarnir, kynfræðslu, sóttvarnir, geðvernd, tannvernd, svo eitthvað sé nefnt. Við leggjum töluverða peninga í allt þetta. Og þó að ungbarnaeftirlit og mæðravernd eigi kannski ekki endilega að vera undir sama hatti og tannheilsuvernd eða manneldi, þá er þetta samt mikilvæg starfsemi sem mikilvægt er að sé ekki langt hver frá annarri. Því kallaði ég til mín í fyrrasumar alla þá sem eru að vinna að forvörnum almennt, sem er geysistór hópur, til að heyra álit þeirra á því hvernig við gætum sameinað forvarnir almennt undir einni regnhlíf, það sem ég hef áður talið upp, í einni forvarnastöð. Það er mikill áhugi á því, auðvitað mismikill, en það er áhugi á því að þessir þættir vinni enn nánar saman. Og ég er alveg viss um að við getum nýtt fjármagnið sem við leggjum til þessara mála miklu betur ef við værum með þau undir sama hatti.

Það er alveg rétt eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda hér áðan, að t.d. tóbaksvarnir og aðrar vímuvarnir eiga náttúrlega afskaplega vel saman. Það fé, milli 40 og 50 millj., sem við erum að setja til tóbaksvarna og annað eins til áfengis- og vímuvarna mundi nýtast betur undir sama hatti. Og þó að ég telji að þessir aðilar hafi unnið alveg geysilega þarft og gott starf og nýtt sína fjármuni vel, þá er hægt að gera það enn betur.

Ég tek því undir þetta hjá hv. þm. og minni á það að á alþjóðavettvangi hefur verið rætt um að 21. öldin verði öld forvarna og heilsuverndar og að aukin þekking geti og eigi að leiða til betra heilsufars.

Það hefur verið lögð fram þáltill. á Alþingi, um heilbrigðisáætlun sem á að gilda til næstu tíu ára, sem einmitt er ýmislegt í sem hér hefur verið fjallað um fyrr í dag.