Forvarnir

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:20:48 (5325)

2001-03-07 15:20:48# 126. lþ. 84.6 fundur 508. mál: #A forvarnir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er að ýmsu að hyggja þegar rætt er um forvarnir. Vegna þess að minnst var á Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og hver væri stefna þeirrar stofnunar í forvörnum, þá vil ég endilega geta þess að varðandi áfengi og tóbak er það stefna Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að minnka aðgengi að tóbaki og minnka aðgengi að áfengi. Eftir því sem aðgengi að tóbaki og áfengi er minna, er talið að minna sé drukkið og minna reykt, sérstaklega af ungu fólki.

Þetta dregur kannski hugann að því að fyrir Alþingi liggur þáltill. um það að auka aðgengi að áfengi í matvöruverslunum. Við höfum verið í baksi með það að forðast það að unglingum sé selt tóbak undir 18 ára aldri. Ég verð því að segja alveg eins og er að ég óttast það mjög að erfitt verði að forðast það að selja unglingum innan við lögaldur áfengi í matvöruverslunum og ég held að einmitt þeir þingmenn sem eru að hugsa um forvarnir ættu að huga að þessu líka því að þetta er það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur beint til allra aðildarlanda sinna. Þess vegna er nefnilega ekki nógu gott að segja ,,A`` hér og segja svo bara ,,Ö`` hinum megin og hafa ekkert þar á milli.