Flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:54:07 (5343)

2001-03-07 15:54:07# 126. lþ. 84.7 fundur 463. mál: #A flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Já, ríkisstjórnin er ekki að gera neitt, segir hv. þm. Kristján Möller. Ég tek nú ekki undir það, en ég er hins vegar alveg örugg á því að eftir að hafa hlustað á flokkssystur hans hér að hann mundi ekki komast langt með þeim í ríkisstjórn, (Gripið fram í.) það er eitt sem er alveg (Gripið fram í.) á hreinu.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þm. um að gefa hæstv. ráðherra frið til að tala.)

Og mér leikur mikil forvitni að vita hvort hv. þm. tekur þetta ekki annað slagið upp í þingflokki sínum, hv. þm. tekur það gjarnan upp hér í þingsalnum og ekki er ég að kvarta yfir því, en mér finnst að hv. þm. ætti að reyna að vinna þingflokkinn fyrst inn á sitt band áður en hann biður um næstu umræðu alla vega um þetta málefni.

En ég hef nú svolítið lagt mig fram í þessum efnum þó það sé alls ekki nógu mikið. Ég hef m.a. boðað til ráðstefnu þar sem ég ætlaði að leiða saman embættismenn og stofnanir í Reykjavík og fjarvinnslufyrirtæki úti á landi og var það reynt, en lítill árangur varð af því. Síðan var tekin ákvörðun um að flytja Byggðastofnun og það eru þó opinber störf sem flytjast út á land. Byggðarannsóknastofnun hefur verið stofnað á Akureyri. Það hefur verið minnst á Jafnréttisstofu. Orkusjóður fór til Akureyrar og umræður standa yfir um Rarik og fleira mætti nefna. Ekki ætla ég að hæla mér nein ósköp af þessu, en ég vil þó halda því til haga að verið er að vinna að þessum málum. Þetta tekur allt sinn tíma, en það eru ýmsir möguleikar, það er ekki nokkur spurning og þetta gerist ekki í hvelli.

Ég vil ekki taka undir það þegar sagt er að þetta sé allt saman embættismönnum að kenna, ég ætla ekki að frýja mig ábyrgð og segja að það sé embættismönnum að kenna að ekki skuli hafa náðst meiri árangur en raun ber vitni. Mér finnst það bara ósanngjarnt. Ég þekki málið ekki þannig. Hv. þm. taldi það langan tíma að ætla sér að ná þessu fram á þremur árum, mér finnst að það sé árangur ef hann næst, þó hann náist ekki á styttri tíma en þremur árum.