Aðgöngugjöld að þjóðgörðum

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 16:07:05 (5348)

2001-03-07 16:07:05# 126. lþ. 84.9 fundur 470. mál: #A aðgöngugjöld að þjóðgörðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég tel þetta mjög þarfa umræðu. Ég hef verið hlynnt hóflegri gjaldtöku að náttúruperlum. Ég hef verið leiðsögumaður víða um veröld og yfirleitt tíðkast að taka gjald að markverðum ferðamannastöðum og að þjóðgörðum, t.d. í Afríku og víðar, Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, en þá er því náttúrlega háttað þannig að þetta er sett inn í ferðina þegar hún er keypt þannig að ekki sé verið að rukka hvern og einn einstaking sem kemur. Þegar rúta kemur að þessum stöðum er búið að innheimta gjaldið fyrir fram á alla þannig að það ætti ekki að vera svo mikill kostnaður við innheimtuna. Ég er mjög hlynnt þessu og sérstaklega þegar maður hugsar um Gullfos og Geysi t.d. Á Nýja-Sjálandi er hverasvæði þar sem maður borgar sig inn, í Rotorua, maður fer þar inn, þar er þjónustumiðstöð og gestastofa og vísir að safni sem maður greiðir aðgang að í leiðinni. Þá leið gætum við auðvitað farið hér.