Aðgöngugjöld að þjóðgörðum

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 16:08:18 (5349)

2001-03-07 16:08:18# 126. lþ. 84.9 fundur 470. mál: #A aðgöngugjöld að þjóðgörðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:08]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og athyglisverðar umræður sem hafa spunnist út frá henni. Ég er mjög sammála því að það er mjög sorglegt að sjá hvað náttúruperlur og göngustígar, t.d. í Skaftafelli, eru niðurníddir vegna þess að það vantar beinlínis fjármagn til málsins. Ég gleðst líka yfir svari umhvrh., það er greinilegt að umhvrh. er að beita sér í þessu máli, það er mjög nauðsynlegt.

Tillagan um gistináttagjald er mjög athyglisverð og ber að skoða hana vel. Ég minni líka á að lengi vel hafa verið umræður um það að ríkið kaupi upp Geysissvæðið og er það mjög brýnt vegna þess að Geysissvæðið á að sjálfsögðu að vera í eigu ríkisins og það er t.d. svæði sem er ekkert óeðlilegt að selja inn á, Gullfoss og Geysi. Auðvitað eigum við að gæta okkar á því að okra ekki í þessum efnum en það er ekkert óeðlilegt við það þar sem hægt er að koma því við að ferðamenn greiði aðgang að náttúruperlum.