Tilraunaskólar og nýjungar í skólastarfi

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 16:25:15 (5357)

2001-03-07 16:25:15# 126. lþ. 84.11 fundur 500. mál: #A tilraunaskólar og nýjungar í skólastarfi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn sú sem ég legg hér fyrir hæstv. menntmrh. er sprottin af umræðunni um útboð kennsluþáttar almenns grunnskóla í Áslandshverfi í Hafnarfirði. Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur lýst yfir andstöðu við áform hæstv. ráðherra og nú frá því í gær heimild hans til að boðin verði út kennsla við skólann í skjóli 53. gr. grunnskólalaganna.

53. gr. kveður á um tilraunir í skólastarfi. Þegar saga greinarinnar er skoðuð aftur í tímann kemur í ljós að hún nær aftur til ársins 1973, en þar getur að líta forvera hennar í frv. til laga um grunnskóla, sem var 9. mál 94. löggjafarþings. Greinin fór inn í lögin sem 65. gr. og hljóðaði í þeirri gerð ekki svo ólíkt þeirri grein sem við nú búum við. En það sem er athyglisverðast getur að líta í athugasemdum með greininni þegar hún er upphaflega lögð fram. Í þeim kemur berlega í ljós hvernig hún er hugsuð og er sú skýring samhljóða áliti þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og styður málflutning okkar þess efnis að ráðherra geti ekki nýtt sér greinina til að heimila útboð kennsluþáttar í almennum grunnskóla. Mig langar, með leyfi forseta, til að lesa athugasemd við greinina þegar hún kom fram:

,,Þessi grein er nýjung. Rök hennar eru þau að ýmsar kennslutilraunir sem æskilegar eru taldar geta verið svo umfangsmiklar og/eða róttækar að því er varðar skipulagningu, kennsluaðferðir, námsefni o.fl., að þær fái ekki notið sín nema aðeins að undanþágur séu veittar frá ákvæðum laga og reglugerða varðandi þau atriði sem tiltekin eru í greininni. Sem dæmi um slíka kennslutilraun mætti nefna áætlanir Reykjavíkurborgar um sameinaðan framhaldsskóla, fjölbrautaskóla að loknu skyldunámi. Ekki er ósennilegt að ýmsir aðrir aðilar kynnu að æskja þess síðar að notfæra sér slík heimildarákvæði um tilraunaskóla, t.d. Kennaraháskóli Íslands vegna Æfinga- og tilraunaskólans, svo og ýmis sveitarfélög þar sem mikill áhugi ríkir í skólamálum.``

Þetta var, herra forseti, úr athugasemdum um greinina þegar hún er upphaflega lögð fram.

Fyrirhugað útboð meiri hluta bæjarstjórnar í Hafnarfirði á kennsluþætti Áslandsskóla hefur ekkert með tilraunir í þróun kennsluhátta að gera. Fyrirhugað útboð lýtur eingöngu að rekstrarformi skólans og er að mínu mati ekkert annað en ódulbúin tilraun til að einkavæða almenna grunnskóla í þeim tilgangi einum að skólinn skili eigendum sínum fjárhagslegum arði.

Skoðun mín er sú að 53. gr. heimili ráðherra einungis að veita undanþágur vegna kennslutilrauna, eða til þess að reka skóla samkvæmt fyrir fram ákveðinni hugmyndafræði. Til að leiða í ljós rök fyrir þessari túlkun minni hef ég óskað eftir því við hæstv. ráðherra að hann leiði okkur í sannleikann um það hvernig hin umtalaða 53. gr. hefur verið nýtt hingað til.