Tilraunaskólar og nýjungar í skólastarfi

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 16:28:24 (5358)

2001-03-07 16:28:24# 126. lþ. 84.11 fundur 500. mál: #A tilraunaskólar og nýjungar í skólastarfi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta var ákaflega einkennileg ræða miðað við fyrirspurnirnar, sem eru þrjár og hljóða svo:

1. Hefur ráðherra styrkt sérstaklega tilraunaskóla eða sérstakar nýjungar í skólastarfi samkvæmt heimild í 53. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla?

2. Ef svo er, hvaða verkefni eru það og hver eru markmið þeirra, hverjir standa að þeim og hvar eru þau á vegi stödd?

3. Hvar er að finna niðurstöður þeirra tilrauna sem lokið er?

Ræða hv. þm. snerist alls ekki um þetta. Svörin við þessum spurningum eru einföld. Það hefur aldrei komið til neinna slíkra styrkja enda er greinin ekki um það að það eigi að styrkja eigi fjárhagslega starfsemi slíkra skóla. Greinin snýst um það að menntmrh. hefur heimild til þess að bregðast við óskum sveitarfélaga eða annarra um það að gera tilraunir í skólastarfi.

Hv. þm. las upp úr greinargerð með frv. þegar þessi grein kom fyrst inn og ég fullyrði að sú tilraun sem Hafnfirðingar hafa í hyggju að gera í grunnskólanum í Áslandi gengur skemmra en sum dæm sem nefnd voru í greinargerðinni og hv. þm. vísaði til.

Eins og hv. þm. getur kynnt sér, ef hún les bréf ráðuneytisins sem þingmönnum er tiltækt, enda hefur þeim verið sent það í tölvupósti og þeir geta lesið bréfið og röksemdir ráðuneytisins, þá er ekki verið að hrófla við neinum grundvallaratriðum í skólastarfinu þó að Hafnfirðingar fái þessa heimild. Þvert á móti liggur alveg ljóst fyrir að það verður starfað í samræmi við lög og reglur og tilraunin takmarkast við hvernig staðið verður að rekstri skólans, en hróflar ekki neitt við neinum grundvallaratriðum varðandi nemendur þannig að þetta mál hefur verið afflutt hér. Ég er undrandi á því að hv. þm. skuli koma hér upp með þessar þrjár spurningar sem hún lagði fyrir mig og flytja þá ræðu sem þingmaðurinn flutti. Ræðan var algjörlega á skjön við spurningarnar og raunar furðulegt að láta sér detta það í hug með hliðsjón af þingsköpum að ganga þannig til verka þegar um mál sem þetta er að ræða.

Ég held að ef þingmenn gefa sér tækifæri til að kynna sér þetta mál efnislega og sleppa þeim fordómum sem einkennir málflutning vinstri grænna þegar þeir fjalla um málið og komast út úr þeirri gildru sem vinstri grænir hafa sett sig í þegar þeir eru að fjalla um nýjungar í skólastarfi eða á öðrum sviðum þar sem einkaaðilar fá að koma að málum, þá sjái þeir að efnislega er full ástæða til þess að fagna þessari tilraunastarfsemi Hafnfirðinga og ýta undir að hún takist og gangi upp, þannig að það komi nýmæli inn í skólastarf hér á landi og að verði unnt að styrkja það með auknu samstarfi við einkaaðila. Það hefur alls staðar sýnt sig að samstarf opinberra aðila og einkaaðila á sviði menntamála skilar mjög góðum árangri.

Hvers vegna skyldum við banna að slíkt samstarf fari fram innan grunnskólans? Hvers vegna skyldum við standa í vegi fyrir því með þeim rökum sem hv. þm. nefndi og þeirri rangtúlkun á lagagreininni sem hér er um að ræða, sem hv. þm. hafði í frammi?

En til þess að ég ítreki svör mín við fyrirspurnunum, sem alls ekki voru rökstuddar í ræðu þingmannsins, þá eru svörin við þeim, öllum þremur, nei.