Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 13:31:40 (5413)

2001-03-08 13:31:40# 126. lþ. 85.5 fundur 158. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um endurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu. Þegar ég las heiti tillögunnar fylltist ég fögnuð og taldi að nú ætti að fara að skoða það sem menn hafa talað um að væru ekki beint heiðarlegar greiðslur, falin laun og annað slíkt og alls konar sporslur. Svo reyndist þó ekki vera. Ef maður les textann þá stendur, með leyfi herra forseta: ,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að láta fara fram heildarendurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu með það að markmiði að jafnræðis sé gætt í slíkum greiðslum milli kynja og að virt séu ákvæði jafnréttislaga í því efni.``

Það á ekki að laga þetta kerfi. Nei, það á að dreifa því jafnt á milli kynjanna. Því sem sumir hafa kallað subbuskap. Það á að dreifa honum jafnt á milli kynjanna og þá er allt í lagi. Ég held að það sé ekki nóg.

Ég held að það þurfi að fara fram endurskoðun á þessum greiðslum yfirleitt og hvers vegna þær eru jafnháar og þær eru í dag. Í þessari tillögu er ekki nefnt það sem kannski vegur þyngst, þ.e. dagpeningar. Greiðslur dagpeninga hafa aukist mjög mikið undanfarið og það er að sjálfsögðu skattalegt atriði. Dagpeningar eru upp að vissu marki skattfrjálsir og fyrirtæki hafa farið þá leið að fela laun undan skatti með því að greiða hluta af þeim sem dagpeninga og eru nokkur dæmi þekkt um það.

Hv. þm. fá sjálfir greidda dagpeninga, 80% þegar þeir fara til útlanda. Þeir fá engu að síður hótelkostnaðinn greiddan. Þetta hef ég margoft bent á að er allt of hátt. Menn koma til baka úr ferð, mismunandi eftir hvað hún er löng, með frá 30--40 og upp í 70 þús. kr. Þetta hafa þingmenn ekki gagnrýnt eða haft neitt á móti þessu heldur bara stungið peningnum í vasann, þeir sömu og flytja hér þáltill. um að dreifa þessum subbuskap á milli kynja.

Hér kemur margt fleira inn í. Hér eru t.d. nefndir bifreiðastyrkir. Mönnum er boðið í ferðir til útlanda eða ferðir tengdar orlofi fjölskyldu þar sem menn nota ferðina til að komast í ódýrt frí. Flugfélögin hafa meira að segja aðlagað sig þessu. Einn aðili greiðir mikið og aðrir fjölskyldumeðlimir minna, þ.e. sá eini sem greiðir mikið, það er sá sem greitt er fyrir, að sjálfsögðu.

Inn í þetta koma fyrirbæri eins og vildarkort flugfélaganna, sem eru um allan heim og afskaplega siðlaust fyrirbæri, herra forseti. Þar fær nefnilega starfsmaðurinn sem flýgur vildarpunktana en ekki fyrirtækið sem greiðir. Þetta hefur jafnvel valdið því að það er ekki hægt að koma á samkeppni í flugi. Þetta var reynt hér um árið. Mér skilst að samkeppnin hafi brostið vegna þess að starfsmennirnir fóru með dýrara félaginu, af því þeir fengu vildarpunktana.

Í svona kerfi, þar sem viðskiptamenn eru fyrirtækin sem greiða, eru flugfélögin andstæð sínum eigin viðskiptavinum. Þetta viðgengst um allan heim, þessi vildarkort, er hluti af þeim subbuskap sem menn hafa gagnrýnt. Launamunurinn er líka falinn með lífeyrisréttindum, óskaplegum lífeyrisréttindum stundum, hjá einstökum aðilum. Það kemur hvergi fram. Þar er lofað miklu meiri lífeyrisréttindum en gengur og gerist. Verðmæti slíkra réttinda geta numið tugum milljóna. Það er ekki minnst á það heldur í þessari till. til þál.

Sumt af þessu er til komið vegna skattalaganna. Menn reyna að komast hjá því að greiða skatta og dagpeningarnir eru hluti af því. Annað er til að fela laun. Af hverju skyldu menn vilja fela laun? Hvernig skyldi standa á því? Vegna þess að þeir mismuna. Það má ekki gefa upp launin sem greidd eru í raun. Það er verið að mismuna einstaklingum, ekki endilega milli kynja. Einstaklingum. Það er verið að mismuna einhverjum sem er sagður hafa einhver ákveðin laun, við skulum segja 250 þús. kr. Svo fær hann dagpeninga, bifreiðastyrki og hlunnindi hér og þar af því að það má ekki sjást að einhver annar með sömu laun, sem ætti að vera með sömu laun, á ekki að fá sömu laun að mati þess sem stjórnar.

Hér hefur verið rætt um jafnrétti karla og kvenna. Það er sannanlega 18% munur á launum karla og kvenna, þegar búið er að þurrka allt út sem mögulegt er. Munurinn er að sjálfsögðu miklu meiri. Það þarf ekki nema líta á aðalfund Seðlabankans til að sjá að það er verulegur launamunur á milli karla og kvenna í stjórnunarstöðum á Íslandi, alla vega í fjármálaheiminum. Hvernig skyldi standa á því?

Ég sakna þess alltaf, herra forseti, að þeir sem berjast mest fyrir jafnrétti karla og kvenna og gagnrýna launamuninn hafi aldrei spurt: Hvernig skyldi standa á því að einhver forstjórinn ræður frekar dýrari karlmann heldur en ódýrari konu? Þessarar eðlilegu spurningar hefur aldrei verið spurt. Ég hef spurt þess nokkrum sinnum: Hvernig skyldi standa á því að ég, væri ég forstjóri, vil frekar ráða Jón en Gunnar á hærri launum þó að Gunnar sé hæfari? Þetta er nefnilega ekki spurning um jafnrétti milli kynja heldur jafnrétti einstaklinga. Ég held ég hafi fundið svarið. Niðurstaðan er sú að mér er alveg sama hvort fyrirtækið græðir eða tapar. Mér er alveg sama hvað viðkomandi starfsmaður kostar. Það hlýtur að vera. Annars væri ég ekki að ráða óhæfari eða jafnhæfan starfsmann á hærri launum og borga honum alls konar hlunnindi til að fela launin, annars væri ég ekki að því. Ef ég ætlaði virkilega að græða þá mundi ég að sjálfsögðu taka fagnandi hæfasta einstaklingnum, hvort sem það væri karl eða kona.

Misréttið sem við glímum við er nefnilega misrétti einstaklinga en ekki kynja. Það kemur fram sem misrétti kynjanna, því þar er hægt að mæla það. Það er hins vegar ekki hægt að mæla milli Jóns eða Gunnars því þeir eru báðir karlmenn.

Af hverju er ekki allt í lagi að hafa misrétti? Af hverju skyldum við berjast fyrir því að hafa jafnrétti? Það er jú jafnréttis- eða réttlætiskenndin sem segir manni að það eigi að ráða hæfasta einstaklingurinn. En af hverju skyldum við berjast fyrir jafnrétti? Vegna þess að jafnréttið er besta leiðin til þess að fá hæfustu einstaklingana til að stýra og gegna ákveðnum stöðum. Misrétti kostar þjóðfélagið heilmikið. Það er þannig þjóðfélagslegt atriði að ráða alltaf hæfasta einstaklinginn til starfa. Þess vegna er ójafnrétti, hvort sem er milli karla eða kvenna eða milli karla innbyrðis alltaf óhagkvæmt. Það á að reyna að berjast á móti því eins og mögulegt er.