Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 13:42:04 (5415)

2001-03-08 13:42:04# 126. lþ. 85.5 fundur 158. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Sé sjúklingur með hita þá lagar það ekki stöðuna að breyta hitamælinum. Það þarf að finna út úr því hvað er að sjúklingnum. Það lagar ekkert stöðuna að segja að það eigi að dreifa þessum greiðslum jafnt á kynin. Það lagar ekki stöðuna að dreifa subbuskapnum jafnt á bæði kynin. Sjúklingurinn er jafnveikur eftir sem áður þó maður hafi leiðrétt hitamælinn og sagt að hann sé með 37 stiga hita þó að í raun sé hann með 42 stiga hita.

Ég mundi vilja sjá heildarendurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu til þess að afnema þessar óeðlilegu greiðslur og afnema að þær séu notaðar til að fela laun. Það hefði ég viljað sjá. Þá lagast hitt af sjálfu sér. Að hafa að markmiði að jafnræðis sé gætt í slíkum greiðslum milli kynja eins og fram kemur í fyrstu orðum þáltill., það held ég lagi ekki nokkurn skapaðan hlut. Þá eru launin áfram falin og engin veit hver er með hærri laun en annar. Þó jafnræðis væri gætt milli kynja verður áfram ójafnræði milli tveggja kvenna, önnur fær bifreiðastyrk en hin ekki. Eða milli tveggja karla.

Ég tel að það eigi að endurskoða allt þetta kerfi með það að leiðarljósi að gera það opnara og gegnsærra og þá hætta menn að geta falið launin eins og gert er í dag.