Gerð neyslustaðals

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 17:21:03 (5465)

2001-03-08 17:21:03# 126. lþ. 85.12 fundur 239. mál: #A gerð neyslustaðals# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[17:21]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, 1. flm. að þáltill. um gerð neyslustaðals sem hér er til umræðu, hefur farið allítarlega yfir málið. Við það er svo sem ekki mörgu að bæta en þó einhverju. Vert er að minnast á nokkur atriði í ágætri grg. með þessari þáltill. Á einum stað í grg. segir t.d., með leyfi forseta:

,,Allur gangur virðist vera á því að hve miklu leyti kannanir liggja að baki nauðsynlegum framfærslukostnaði hverrar fjölskyldugerðar. Mikilvægt er að þróaður verði einn samræmdur neyslustaðall sem opinberir aðilar byggi á við ákvarðanir sem tengjast framfærslu og tekjum. Annars staðar á Norðurlöndum og reyndar víða í Evrópu hefur verið farin sú leið að þróa einn ákveðinn neyslustaðal sem framfærslukostnaður eftir fjölskyldugerð og stærð byggist á og notaður er við ýmsar stjórnvaldsákvarðanir.``

Herra forseti. Ég vildi aðeins stoppa við þetta atriði og gera að umtalsefni hve nauðsynlegt er, þegar farið er í að meta framfærslukostnað eftir fjölskyldugerð, að skoða jafnframt hvar menn búa á landinu. Ég hygg að allt of oft séu bæði kannanir og athuganir, sem notaðar eru sem grunnur að slíkum viðmiðum, unnar út frá höfuðborgarsvæðinu. Þar inn í kemur verðlag á nauðsynjavörum og annað sem ruglar þetta dæmi mjög mikið. Það má t.d. spyrja að hvort eðlilegt sé, við útreikning á vísitölu neysluverðs, að styðjast eingöngu við þróun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu en ekki annars staðar á landinu og taka svo meðaltalið.

Það er staðreynd, herra forseti, að stórhækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt til mikillar hækkunar á þessari vísitölu og jafnframt til stóraukinna afborgana fyrir íbúa á landsbyggðinni, sem eiga í raun engan þátt í þessari hækkunaröldu sem hér hefur riðið yfir. Þeir þurfa þá að borga hærri afborganir af lánum sínum af húsnæði sem lækkað hefur í verði, öfugt við þróunina á höfuðborgarsvæðinu.

Það er ekki eðlilegt og er full ástæða til að benda á það á hinu háa Alþingi að við gerð neyslukönnunar eða neyslustaðals er ástæða til að taka meðaltal af öllu landinu. Varðandi framfærslukostnað þá er ég er ekki viss um að allt of mikið tillit sé tekið til þess að margir íbúar landsbyggðarinnar búa t.d. við mjög háan húshitunarkostnað. Til eru dæmi um 200--300 þús. kr. kostnað við að hita venjuleg hús sem er náttúrlega miklu hærra en á höfuðborgarsvæðinu. Spurningin er: Hvernig kemur þetta inn í framfærslukostnað?

Það er sannarlega líka miklu hærra verðlag úti á landi vegna þess sem við ræddum um áðan og höfum rætt um áður, t.d. vegna þess að þungaskatturinn hækkar verðlag eftir því sem lengra er farið og virðisaukaskatturinn leggst svo ofan á það. Afleiðingin er sú að nauðsynjavörur, jafnt sem aðrar vörur sem fluttar eru frá höfuðborgarsvæðinu þar sem flestu er skipað í land fyrir stórheildsölur sem dreifa þessum vörum, eru miklu dýrari á landsbyggðinni en eðlilegt er. Er tekið tillit til þess í þeim könnunum sem gerðar eru og Hagstofan hefur birt? Margt fleira mætti nefna, t.d. kostnaðinn við að senda ungling til náms, sjúkrakostnað o.fl. Með öðrum orðum, herra forseti, er full ástæða til þess að skoða landið allt í heild sinni og nota frekar meðaltalið af því.

Hér kemur líka fram að Hagstofan áætlar framfærsluþörf einstaklings 96.000 kr. á mánuði en Ráðgjafarstofan 63.000 kr. Í nýlegum samanburði frá miðju síðasta ári á framfærslukostnaði samkvæmt lágmarksframfærslu Íbúðalánasjóðs, viðmiðunarneyslu Ráðgjafarstofu og neyslukönnun Hagstofunnar, áætlar Íbúðalánsjóður framfærslukostnað hjóna með tvö börn 108 þús. kr., Ráðgjafarstofan tæpar 140 þús. kr. og Hagstofan rúmlega 242 þús. kr. Það rennir vissulega stoðum undir nauðsyn þess að sett verð samræmd neysluviðmiðun fyrir framfærslukostnað heimilanna eins og hér er lagt til. Misræmið á milli þessara stofnana sem skoða framfærslukostnaðinn er nægjanleg ástæða, herra forseti, til að leggja fram þáltill. sem hér er flutt. Það er náttúrlega með ólíkindum að Hagstofan skuli meta kostnaðinn rúmlega 242 þús. kr. meðan Íbúðalánasjóður gerir ráð fyrir 108 þús. kr. Þetta er þvílíkur munur að hann ætti að duga sem meðmæli með þessari þáltill., að hún verði samþykkt og eftir henni unnið. Við mundum þannig færa okkur í átt að því sem gert hefur verið víðast hvar á Norðurlöndum og víða í Evrópu. Þar er notast við sérstaka neysluviðmiðun til leiðbeiningar við mat á greiðslugetu fólks o.s.frv.

Þetta er, herra forseti, eitt aðalatriðið fyrir því að þessi tillaga er flutt. Ég tel ákaflega mikilvægt og fulla ástæðu til að hv. þm. og þá sérstaklega stjórnarsinnar gefi tillögunni gaum og athugi hvort hér er ekki mál sem full þörf er á að samþykkja. Það á ekki endilega að skiptast eftir pólitískum flokkum. Hér hefur gott og mikilvægt mál verið lagt fyrir þingið.

Ég hvet, herra forseti, til að þetta mál fái fljóta afgreiðslu. Eins og ég sagði áðan er ákaflega brýnt að eyða þeim mikla mismun sem fram kemur milli ýmissa opinberra stofnana um hver framfærslukostnaðurinn er. Ég ætla jafnframt að ítreka enn einu sinni og segja: Það er full ástæða til að skoða landið í heild og nota frekar meðaltöl eins og ég tók dæmi hér um áðan varðandi þróun á vísitölu neysluverðs, hvernig íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu virkar þar eitt án tillits til íbúðaverðs á landsbyggðinni.