Viðskiptahallinn

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:08:57 (5480)

2001-03-12 15:08:57# 126. lþ. 86.1 fundur 358#B viðskiptahallinn# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti Hv. þm. getur ekki neitað sér um það frekar en fyrri daginn að snúa pínulítið út úr. Vissulega eru vonbrigði að ekki skyldi draga úr viðskiptahallanum. Það er samt ekki þannig að þó að hann sé meiri en spáð var þá sé eitthvert stórfellt vandamál komið upp til viðbótar. Það er ekki svo.

Ég tel að viðskiptahallinn eins og hann er nú hamli því að unnt sé að lækka hér vextina. Ég er alveg sannfærður um að Seðlabankinn mun beita sér í þeim efnum við fyrsta mögulega tækifæri. Ég held jafnframt að þessar tölur greiði ekki fyrir því.

Hins vegar bendi ég á að í morgun komu nýjar verðbólgutölur og þær sýna að á síðustu 12 mánuðum hefur verðlagið hækkað um 3,9%. Það gefur vissulega góðar vonir um að þessi mikilvæga stærð, hækkanir á neysluverði, verði innan þess ramma sem við höfum gert ráð fyrir.