Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:23:24 (5530)

2001-03-12 17:23:24# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:23]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum er rökrétt afleiðing af dómi Hæstaréttar. Ég gat þess í umræðum um málefni öryrkja þann 18. janúar sl. að það væri mjög eðlilegt að veita ellilífeyrisþegum ekki síðri rétt en öryrkjum vegna þess að staða þeirra er mjög svipuð.

Í dómi Hæstaréttar segir, með leyfi forseta: ,,Verður tæpast annað sagt en að réttur öryrkja til framfærslu fjölskyldu sinnar verði smár hafi hann aðeins tekjur, sem nema grunnörorkulífeyri.`` --- Þ.e. 18.000 kr. Þetta er smátt, segir Hæstiréttur. Þetta á nákvæmlega við um ellilífeyrisþega líka, að réttur ellilífeyrisþega til framfærslu fjölskyldu sinnar er smár ef hann hefur eingöngu ellilífeyri. Þess vegna er mjög eðlilegt að það frv. sé flutt sem við ræðum og ég get ekki annað en fallist á það með sama hætti og ég féllst á frv. sem við ræddum í janúar.

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Möller benti réttilega á það að sú ályktun Hæstaréttar í forsendum dómsins að staða ellilífeyrisþega væri á margan hátt betri en örorkulífeyrisþega vegna þess að þeir hefðu greitt lengur í lífeyrissjóð væri ekki alls kostar rétt. Hún er meira að segja röng, yfirleitt. Það fólk sem greitt hefur í lífeyrissjóði og greiðir í lífeyrissjóði er betur sett ef það verður öryrkjar vegna framreikningsins, það fær yfirleitt lengri tíma en það fólk sem núna er komið á ellilífeyri, það hefur yfirleitt skemmri tíma samanlagt í lífeyrissjóði. Þess vegna eru ellilífeyrisþegar á margan hátt verr settir en örorkulífeyrisþegar, nema í þeim örfáu sjóðum sem ekki eru með framreikning og ber þá kannski hæst B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en hann er ekki með framreikning. Flestallir aðrir lífeyrissjóðir eru með framreikning og þá er staða öryrkja betri og þess vegna er enn meiri ástæða til þess að bæta stöðu ellilífeyrisþega að þessu leyti.

Herra forseti. Staða ellilífeyrisþega er afskaplega mismunandi. Margir þeirra eiga miklar eignir, sumir hafa mjög góðan lífeyri en aðrir eiga litlar eignir eða engar og hafa sumir hverjir ekki greitt í lífeyrissjóð, sumir hafa ekki getað það vegna þess hve þeir eru orðnir aldraðir, voru á vinnumarkaði áður en lífeyrissjóðirnir urðu almennir, en skylda til að greiða í lífeyrissjóð kom 1974. Það fólk sem fætt er fyrir 1915, fékk reyndar úrbót sinna mála með lögunum um umsjónarnefnd eftirlauna, en þær bætur eru mjög lágar. Síðan eru nokkrir ellilífeyrisþegar, t.d. hjá Lífeyrissjóði bænda, sem eru með mjög lágan lífeyri. Þess vegna er staða sumra ellilífeyrisþega oft og tíðum verri en staða örorkulífeyrisþega. En eins og ég gat um áðan er staða þeirra mjög mismunandi.

Herra forseti. Það er svo önnur saga, eins og ég gagnrýndi við umræðuna um málefni öryrkjanna, að við erum í rauninni að auka bætur til fólks sem er með tiltölulega góð kjör. Þetta er fólk sem býr með maka sem hefur háar tekjur, annars hefði það fengið óskerta tekjutryggingu. Reyndar er það ekki alveg með sama hætti og hjá öryrkjum, en engu að síður erum við að opna á það að fólk þar sem makinn hefur kannski unnið alla ævi, eins og var hér áður fyrr og konan var heimavinnandi, og makinn hefur oft og tíðum haft nokkuð góðar tekjur og góðan lífeyri, þá erum við auka greiðslur til makans sem hafði jafnvel verið tekjulaus alla ævi. Þetta er sjónarmið sem ég er ekki alveg sáttur við vegna þess að allt er þetta greitt með skattpeningum, með sköttum á fólk sem er jafnvel með miklu lægri heimilistekjur en það fólk sem er að fá bætur samkvæmt þessu frv. En þetta er afleiðingin af dómi Hæstaréttar og hvort sem menn eru sáttir við það eða ekki, þá er þetta niðurstaðan.

Þannig er að margt fólk sem er kannski með 200 þús. kr. heimilistekjur er að borga með sköttum sínum þær bætur sem við erum að greiða hér til fjölskyldna sem eru með töluvert hærri tekjur. Og það brýtur í rauninni það grundvallarsjónarmið í velferðarkerfinu að sá sem greiðir bætur eigi ekki að vera verr settur en sá sem þiggur þær.

Herra forseti. Ég styð þetta frv. sem beina afleiðingu af dómi Hæstaréttar sem við að sjálfsögðu hlítum. Ég vona að ekki komi til frekari afleiðinga af dómi Hæstaréttar, svo sem eins og á Lánasjóð íslenskra námsmanna og á enn frekari dæmi eins og ég nefndi í janúar, en það er hægt að sjá fyrir sér rökréttar afleiðingar af dómi Hæstaréttar mjög víða, ef hætta á að taka tillit að einhverju leyti til fjölskyluaðstæðna og ef fólk á að hafa reisn til að standa straum af kostnaði við rekstur fjölskyldu sinnar. En að öðru leyti, herra forseti, styð ég þetta frv.