Húsnæðismál

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:02:34 (5705)

2001-03-14 14:02:34# 126. lþ. 89.2 fundur 458. mál: #A húsnæðismál# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Allar götur frá því að grundvallarbreytingar voru gerðar á húsnæðiskerfinu í byrjun árs 1998 hafa komið fram ábendingar um að kerfið þurfi að endurskoða og grípa til hliðarráðstafana sem tryggi tekjulægri hluta samfélagsins aðgang að íbúðarhúsnæði á viðunandi kjörum. Margt veldur þeim vanda sem við er að stríða í húsnæðismálum. Miklir búferlaflutningar eiga án efa sinn þátt, en ekki verður heldur fram hjá því horft að með þyngri lánskjörum vegna kaupa á íbúðarhúsnæði fjölgar þeim sem þurfa að leita út á leigumarkaðinn. Sá markaður er allt of lítill og þar af leiðandi rándýr.

Samkvæmt skýrslu félmrn. frá því í apríl á síðasta ári skorti um 1.100 leiguíbúðir á höfuðborgarsvæðinu og allir þekkja það af fréttum að í Reykjavík einni eru á fjórða hundrað einstaklingar og fjölskyldur í bráðri neyð að mati félagsmálayfirvalda. Margir eiga innhlaup hjá félagslegum aðilum þar sem leigan er víða heldur lægri en þá er á það að líta að framtíð þessara aðila er ótrygg því að ófrágengið er hvernig stuðningi við þá verður háttað til framtíðar.

Þeir sem vilja festa kaup á íbúðarhúsnæði eiga kost á húsbréfalánum sem eru verðtryggð með 5,1% vöxtum. Það eru lægri vextir en gerast á almennum lánsfjármarkaði en sá hængur er á að ávöxtunarkrafa húsbréfanna hefur sveiflast eftir því sem eftirspurn hefur verið á þessum markaði. Þegar dregið hefur úr eftirspurn á verðbréfamarkaði eftir húsbréfum hefur það leitt til affalla á bréfunum sem síðan hefur orðið til að þrýsta íbúðarverði upp. Tekjulægsta fólkið á að sönnu kost á viðbótarlánum en þau lán eru á hærri vöxtum en húsbréfin og allir þurfa síðan að leita út á uppsprengdan lánsfjármarkaðinn um þá upphæð sem upp á vantar. Algengt er að tekjulágt fólk sé nauðbeygt til að taka víxillán sem bera 20% vexti.

Við erum komin langan veg frá félagslega íbúðakerfinu sem bauð tekjulægra fólki kost á lánum til húsnæðiskaupa með 1% vöxtum til 40 ára. Ekki skal gert lítið úr þeim stuðningi sem fólk hefur af vaxtabótum og húsaleigubótum þótt sá stuðningur þyrfti að vera mun meiri. En niðurstaðan er þessi: Sveiflur í eftirspurn eftir húsbréfum valda afföllum og auknum byrðum á kaupendur húsnæðis. Þessa eftirspurn þarf að tryggja þannig að hún sé stöðug. Ef lífeyrissjóðirnir hefðu tryggt stöðuga eftirspurn eftir húsbréfum í sumar hefði mátt komast hjá hinum miklu afföllum sem þá urðu.

Í öðru lagi þarf að tryggja stóraukið framboð á leiguhúsnæði til að svara eftirspurn til frambúðar. Til að svo megi verða þarf að koma til þjóðarátaks til lausnar þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í húsnæðismálum og að því átaki komi ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóðir. Ríki og sveitarfélög veiti félagslegan stuðning með niðurgreiddu fjármagni og hugsanlega einnig stofnstyrkjum til aðila sem reisa og reka leiguhúsnæði auk að sjálfsögðu vaxtabóta og húsaleigubóta til einstaklinga. Samtök launafólks og almannasamtök sem halda utan um málefni leigjenda eða sinnt hafa félagslegum þörfum á þessu sviði þyrftu einnig að koma að þessu átaki.

Nú er mér kunnugt um að hæstv. félmrh. hefur tekið vel í hugmyndir af þessu tagi og telur brýnt að leita nýrra lausna til að ráða bót á húsnæðisvandanum. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hverjar þær lausnir eru.