Húsnæðismál

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:16:14 (5711)

2001-03-14 14:16:14# 126. lþ. 89.2 fundur 458. mál: #A húsnæðismál# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hann veitti. Við erum að vísu ekki sammála um ágæti nýja húsnæðiskerfisins en við erum sammála um hitt að horfa fram á veginn og leita nýrra lausna á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir og að byggja þær lausnir á eins breiðri samstöðu og unnt er að skapa og það eigum við að sjálfsögðu að reyna að gera í sameiningu.

Það er von mín að sú atburðarás sem nú er verið að hrinda af stað og hæstv. félmrh. greindi frá muni leiða til þess að efnt verði til þjóðarátaks þar sem að komi ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóðir um lausnir, en að stefnumótandi vinnu komi einnig samtök á vinnumarkaði, verkalýðshreyfing og samtök atvinnurekenda og að sjálfsögðu einnig þeir aðilar, þau almannasamtök, sem halda utan um félagsleg réttindi leigjenda.

Við fundum það þegar við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði settum fram hugmyndir í byrjun febrúarmánaðar um að efna til slíks þjóðarátaks og kalla lífeyrissjóðina til ábyrgðar að þær hugmyndir fengu góðan hljómgrunn. Lífeyriskerfið byggir á því að allir landsmenn, launamenn og atvinnurekendur eru skyldaðir til að greiða fjármuni inn í þetta kerfi. Þetta er orðinn veigamikill hluti af fjármálakerfi þjóðarinnar. Þetta kerfi þarf að sjálfsögðu einnig að kalla til samfélagslegrar ábyrgðar og allir ábyrgir aðilar í þessu þjóðfélagi, ríkið, sveitarfélögin, lífeyrissjóðirnir, verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og almannasamtök eiga að fylkja sér undir þetta merki. Ég fagna sérstaklega svari hæstv. félmrh. og vona að sú atburðarás sem hann hefur nú hrundið af stað verði til góðs.