Hjólreiðamenn á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:47:43 (5726)

2001-03-14 14:47:43# 126. lþ. 89.4 fundur 490. mál: #A hjólreiðamenn á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:47]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er ýmislegt sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir harmar þessa dagana, þar á meðal skoðanir samgrh. Skoðanir okkar fara fjarri því saman þannig að viðbrögð hennar snerta mig ekki mjög mikið satt að segja. En hvað um það.

Ég vil bara undirstrika að það kom fram hjá mér að breikkuðu axlirnar á Reykjanesbrautinni eru ekki sérstaklega ætlaðar fyrir hjólreiðarmenn. Ég vil að það komi skýrt fram. Þær auka hins vegar öryggi á brautinni og til þess voru þær gerðar. Það er ekki bannað að hjóla eftir þjóðvegum landsins þannig að það verður að taka fullt tillit til þess.

Mér er fullkomlega ljóst að við höfum skuldbundið okkur til að draga úr loftslagsmengun en ég verð að viðurkenna að ég óttast að það muni sækjast seint ef við ætlum að leysa þau mál með því að láta fólk á Íslandi hjóla. Auðvitað eru margir sem hafa áhuga á því en ég held hins vegar að það gangi mjög skammt í því að leysa vanda okkar hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda frá umferðinni, frá skipastólnum og frá mengandi iðnaði. En margt smátt gerir eitt stórt. Við þurfum auðvitað að líta til þess alls.

Það er alveg ljóst að það er á valdi sveitarfélaganna að skipuleggja hjólreiðarbrautir innan sinna svæða en engu að síður er það svo að Vegagerðin gerir sér grein fyrir því að um leið og verið er að hanna þjóðvegi landsins þá þarf að taka tillit til þessa ferðamáta eins og annarra hvað varðar uppbyggingu vegakerfisins.

Hvað varðar spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um stefnu í ráðuneytinu hvað varðar umferð hjólreiðamanna um akbrautir landsins, þá eru umferðaröryggismál á málasviði dómsmrn. þannig að ekki hefur verið fjallað sérstaklega um þá þætti í samgrn.