Viðhald sjúkrahúsbygginga

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:06:00 (5735)

2001-03-14 15:06:00# 126. lþ. 89.6 fundur 513. mál: #A viðhald sjúkrahúsbygginga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í 3. mgr. 34. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, er kveðið á um þátttöku sveitarfélaga í stofnkostnaði vegna sjúkrahúsbygginga þar sem þeim er ætlað að greiða 15%. Þá segir einnig í málsgreininni að meiri háttar viðhald og tækjakaup skuli telja til stofnkostnaðar en almennur viðhaldskostnaður fasteigna og tækja greiðist hins vegar sem rekstrarkostnaður og málsgreininni lýkur með þessum orðum:

,,Heilbrigðisráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um hvað telst til meiri háttar viðhalds.``

Eftir þeim upplýsingum sem ég hef hefur þessi reglugerð aldrei verið sett og þess eru dæmi að sveitarfélögin hafa fengið senda reikninga vegna viðhalds og tækjakaupa sem er afar hæpið að telja til stofnkostnaðar. Ég hef hér bréf sem Karl Björnsson, bæjarstjóri Árborgar og fjárhaldsmaður héraðsnefndar Árnesinga, hefur sent vegna reikninga sem sveitarfélögunum í Árnessýslu er gert að greiða. Um er að ræða reikninga vegna t.d. endurnýjunar á sjúkrabifreið, innanhússendurbætur upp á 4,5 millj., pokakerfi þvottahúss, endurnýjun ljósritunarvélar, utanhússviðhald, endurnýjun á framköllunarvél vegna röntgenmynda, áhaldaþvottavél. Í bréfi bæjarstjórans segir, með leyfi forseta:

,,Á grundvelli ákvæða ofangreindrar lagagreinar, [þ.e. áðurnefndrar 34. gr.] er ljóst að öll framangreind verkefni eru hrein viðhaldsverkefni og þar með rekstrarkostnaður sem er alfarið á ábyrgð ríkisins. Verði því vart mótmælt með vísan til almennra bókhaldsreglna. Fróðlegt væri að fá upplýsingar úr bókhaldi ríkissjóðs sem sýna að framangreind útgjöld hafi verið bókfærð sem eignamyndun og þar með stofnkostnaður. Um er að ræða verkefni sem viðhalda þeirri starfsemi sem þegar er fyrir hendi.``

Og áfram segir í bréfinu:

,,Að auki getur það ekki talist góð stjórnsýsla að annar aðili í samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga ákveði án nokkurs samráðs við hinn að fjárframlög af hans hálfu kalli sjálfkrafa á útgjöld hins og ákveði þar að auki einhliða hvað teljist til meiri háttar viðhalds án stoðar í reglugerð sem setja átti samkvæmt lögum. Af þeim sökum og að auki með vísan til almennrar jafnræðisreglu stjórnsýslunnar hvað varðar greiðslukröfur ríkisins gagnvart einstökum sveitarfélögum voru þessir reikningar endursendir af hálfu sveitarfélagsins.``

Virðulegi forseti. Samkvæmt bréfi þessu virðist viðgangast að sveitarfélögunum sé án lagaheimildar gert að greiða reikninga vegna almenns viðhalds og tækjakaupa á sjúkrahúsum eðlilegan rekstrarkostnað sem er alls ekki hægt að flokka sem stofnkostnað og má því velta því fyrir sér hvort þau eigi ekki endurkröfurétt á ríkið jafnvel nokkur ár aftur í tímann. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

Hvers vegna hefur ráðherra ekki sett reglugerð í samræmi við ákvæði lokamálsliðar 3. mgr. 34. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu?