Jarðvarmi og vatnsafl

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:18:52 (5771)

2001-03-14 18:18:52# 126. lþ. 89.12 fundur 547. mál: #A jarðvarmi og vatnsafl# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:18]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í febrúar 1997 samþykkti ríkisstjórnin að iðnrh. í samráði við umhvrh. léti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Áætlunin skyldi vera í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku- og iðnaðar- og efnahagsmálum. Í samþykkt ríkisstjórnar segir m.a.: ,,Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður færðar að skipulagi.`` Enn fremur skyldu gerðar rannsóknir til að afla grundvallarþekkingar á umhverfisáhrifum virkjana á Íslandi og fé lagt til þróunar rannsóknaraðferða í því skyni. Í mars 1999 kynnti iðnrh. rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma undir kjörorðinu ,,Maður -- nýting -- náttúra``. Markmið hennar er m.a. að leggja grundvöll að forgangsröðun virkjanakosta, með tilliti til þarfar þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Rammaáætlunin byggir á faglegum og lýðræðislegum vinnubrögðum, vandaður undirbúningur að ákvörðun dregur úr hættu á mistökum og stuðlar að meiri sátt um niðurstöðu. Við gerð ramma\-áætlunar vilja stjórnvöld að lagt sé mat á virkjunarkosti og þeir flokkaðir með tilliti til orkugetu og hagkvæmni, gildis þeirra fyrir þjóðarhag, atvinnu- og byggðaþróun í landinu, svo og áhrifa á náttúrufar og umhverfi, hlunnindi, útivist og menningarminjar.

Vinna hófst þegar vorið 1999 við undirbúning að gerð áætlunarinnar. Hefur verið unnið mikið starf við öflun grunnupplýsinga og nauðsynlegra rannsókna á náttúrufari, svo og þróun á aðferðafræði við verndarviðmið. Mótun aðferða við áætlunargerð einstakra virkjanakosta er einnig langt komin. Þó svo að öllu meiri vinna hafi verið unnin við undirbúning og rannsóknir en í upphafi var gert ráð fyrir miðar gerð áætlunarinnar eðlilega miðað við þau tímamörk er menn settu sér í upphafi.

Verkefnisstjórnin setti sér það markmið í upphafi að í lok 2002 mundi hún skila fyrsta áfanga mats á allt að 25 virkjunarhugmyndum af hugsanlegum 100 hugmyndum sem komið gætu til umfjöllunar í rammaáætlun. Í þessum fyrsta hópi verður lögð áhersla á virkjunarhugmyndir sem tengjast jökulám á hálendi og háhita nærri byggð. Stefnt er að því að meðal jökulánna yrðu Jökulsá í Skagafirði, Skjálfandafljót, Jökulsá á Fjöllum, Jökulsá á Dal, Jökulsá á Fljótsdal, Hverfisfljót, Skaftá, Hólmsá, Markarfljót, Þjórsá og Hvítá í Árnessýslu.

Meðal háhitasvæða sem vonast er til að komi til mats í árslok 2002 eru Reykjanes, Krýsuvík, Trölladyngja og Brennisteinsfjöll á Reykjanesskaga, Nesjavellir, Grændalur, Ölkelduháls og Hengilssvæði, Torfajökulssvæði á Suðurlandi og Öxarfjörður, Þeistareykir, Krafla og Námafjall á Norð-Austurlandi.

Í tilefni mats á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, sem stendur nú yfir, hefur verkefnisstjórnin að beiðni iðnrh. flýtt vinnu sinni við undirbúning að mati á virkjunarhugmyndum sem fela í sér umtalsverð miðlunarlón. Er það gert í þeim tilgangi að áður en tekin er ákvörðun um að ráðast í Kárahnjúkavirkjun hafi menn samanburð annarra virkjunarkosta við hana.

Á fjárlögum 2001 var ráðstöfunarfé Orkusjóðs til undirbúnings rannsóknar rammaáætlunar aukið til að flýta gerð vinnu við þessar virkjanahugmyndir og stefnir verkefnisstjórnin að því að gefa fyrstu umsögn sína um þær í árslok 2001. Vonir standa því til að upphafleg áætlun um lok á fyrsta hluta rammaáætlunar á árinu 2002 muni geta staðist.