Greiðslur vegna tjóna af völdum jarðskjálfta

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:33:18 (5777)

2001-03-14 18:33:18# 126. lþ. 89.13 fundur 516. mál: #A greiðslur vegna tjóna af völdum jarðskjálfta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:33]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrri spurningunni vil ég segja að í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur í október sl., á þskj. 59, lagði ég fram töflu þar sem gerð var grein fyrir fjölda eigna sem urðu fyrir altjóni í jarðskjálftunum í júní sl. og upplýsingum um bótafjárhæðir, brunabótamat og endurstofnverð. Fjórar eignir hafa bæst við þá upptalningu og eru íbúðarhús sem orðið hafa fyrir altjóni því orðin 38 talsins. Nýrri töflu með uppfærðu yfirliti mun ég láta dreifa á borð þingmanna.

Sem svar við síðari spurningunni: Nefnd ráðuneytisstjóra, sem skipuð var strax í kjölfar jarðskjálftanna í júní, er enn að störfum. Nefndinni hefur verið falið að ræða þessi mál við stjórn Viðlagatryggingar Íslands. Þannig liggur ekki enn fyrir lokaniðurstaða hvernig farið verður með mál sem þessi.

Að auki vil ég segja og vekja athygli á því að ég hef lagt fyrir ríkisstjórn minnisblað þar sem kynnt er sú ákvörðun mín að setja á laggirnar nefnd sem fari yfir þá verkferla sem Viðlagatrygging Íslands beitti í starfi sínu við tjónsuppgjör vegna skjálftanna sl. sumar, helstu ágreiningsefni sem upp komu við úrvinnslu og benti á leiðir til úrbóta. Jafnframt er gert ráð fyrir að nefndinni verði falið að kanna tilhögun viðlagatrygginga í helstu nágrannalöndum og meta það hvort viðlagatryggingar séu jafn vel eða betur komnar hjá hinum almennu vátryggingafélögum. Þegar nefnd þessi hefur skilað niðurstöðum mun ég taka ákvörðun um hvort tilefni sé til að láta semja frv. til laga um breytingar á því lagaumhverfi sem gildir um viðlagatryggingar.

Eitt vil ég benda á sem skiptir máli í umræðu um viðlagatryggingu og hvort tjónþolar hafi fengið bætur fyrir tjón sitt, sem er brunabótamat eigna, og má e.t.v. segja að hafi verið rót vandans hvað varðar tjón á Suðurlandi. Með breytingum á lögum um brunatryggingar og reglugerð settri á grundvelli þeirra, hefur verið tekið á þessum atriðum, þ.e. gert er ráð fyrir að brunabótamat taki til efnislegra verðmæta þeirra húseigna sem eyðilagst geta af eldi og miðast við byggingarkostnað, að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Fasteignamat ríkisins hefur þegar hafist handa við leiðréttingu brunabótamats eigna í samræmi við þessar breyttu forsendur.