Almannatryggingar

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:13:42 (5829)

2001-03-15 14:13:42# 126. lþ. 91.2 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, Frsm. minni hluta ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Greinilegt er að hv. formanni heilbr.- og trn. þykir ástæða til að geta ýmissa atriða hér en það er ekkert af því sem varðar neitt af því sem ég hef verið að halda fram annað en það að ég vil mótmæla því að þessi lagasetning varði ekki hæstaréttardóminn. Þetta er samræming út frá þeim dómi. Hvers vegna er verið að koma með þessa lagasetningu inn í þingið? Telur hv. þm. að þessi lagasetning hefði komið inn í þingið ef ekki hefði verið dómur Hæstaréttar og frv. hér í kjölfar hans?

Herra forseti. Þetta er ákaflega sérkennileg staðhæfing frá hv. þm. Að tala um það að þetta tengist ekki öryrkjum. Ég hef aldrei sagt að þetta mál varðaði öryrkja. Aftur á móti, herra forseti, tel ég fulla ástæðu til að minnast á það að tekjutengingin gagnvart ellilífeyrisþegum er meiri en gagnvart öryrkjum. Frítekjumörkin eru lægri, sem gerir það að verkum að enn er það svo þrátt fyrir það að margoft hafi verið bent á að þegar öryrki verður gamall, þegar hann verður ellilífeyrisþegi, þá lendir hann í miklu meiri tekjutengingum þrátt fyrir þessar lagabreytingar. Ég hefði gjarnan viljað sjá það hér fyrst verið er að breyta 17. gr. að einnig hefði verið tekið á þessum atriðum þannig að þegar öryrkinn verður 67 ára verði hann ekki fyrir kjaraskerðingu eins og hann verður áfram þrátt fyrir þessa lagabreytingu. Það er atriði sem við hefðum einnig átt að skoða í nefndinni ef tími hefði gefist til. En ég minni á það, herra forseti, að komið hefur í ljós að 98% þeirra sem þessi lagabreyting náði til hjá öryrkjunum á sínum tíma eru konur og í ljósi þess er full ástæða til að skoða þennan þátt.