Minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:13:30 (5926)

2001-03-26 15:13:30# 126. lþ. 97.91 fundur 416#B minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er að verða fróðlegra og fróðlegra eftir því sem tíminn líður að fá upplýsingar um hvað stendur í þessu blessaða minnisblaði, slík er leyndin yfir því að engu tali tekur. En þessi umræða er að verða eins og sagan endalausa. Við hv. þm. fáum upplýsingar skammtaðar úr hnefa eins og hentar og það er að verða meginregla en ekki undantekning að það sé frjálst mat hæstv. ráðherra hverju sinni hvaða upplýsingar þingið fær og hverjar ekki.

Því verður að halda til haga, virðulegi forseti, að ef þingið á að geta sinnt hlutverki sínu að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, þá verður það að hafa aðgang að upplýsingum og vegna þingræðisreglunnar er það einfaldlega þannig að það kemur í hlut minni hlutans að veita slíkt aðhald. Við sjáum það mjög sjaldan ef nokkurn tíma að hv. þm. úr meiri hlutanum veiti hæstv. ráðherrum nokkurt aðhald sem máli skiptir. Þetta er fyrst og fremst hlutverk minni hlutans. Og það er mjög sorglegt, virðulegi forseti, að þurfa að sitja undir því æ ofan í æ að fá upplýsingar skammtaðar úr hnefa í umræðum.

Ekki er langt síðan, virðulegi forseti, að við fengum merka skýrslu um laxeldi og sölu tiltekinna fyrirtækja o.s.frv. Sú skýrsla var ritskoðuð. Það er sama hvar borið er niður. Alltaf er niðurstaðan sú sama og hún er sú: Um ykkur gildir svipað eða sambærilegt og um almenning. Þetta er þveröfugt við það, virðulegi forseti, sem hugmyndafræðin sem býr að baki þrígreiningu ríkisvaldsins byggir á og það er dálítið merkilegt, virðulegi forseti, að við skulum þurfa að standa í umræðum aftur og aftur þar sem okkur eru skammtaðar upplýsingar úr hnefa þrátt fyrir skýr ákvæði stjórnarskrárinnar um hvert skuli vera hlutverk þingmanna.