Innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:59:01 (5953)

2001-03-26 15:59:01# 126. lþ. 97.1 fundur 412#B innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að fengur sé fyrir hv. alþingismenn að koma hér upp og segja að ekki sé tekið á þessu af þeirri alvöru sem ber. Það getur vel verið að einhver pólitískur fengur sé fyrir hv. þm. Kristján Pálsson að tala á þennan hátt.

Meira að segja hefur verið gengið svo langt að rætt hefur verið um það úr þessum stól að skjóta nokkrar álftir, sem ekki var gefið leyfi fyrir, til að rannsaka bæði innyfli þeirra og fætur. Þá þótti of langt gengið. En svona er umræðan stundum.

Ég vona að mínir menn gangi eins langt og þeir geta í að verja okkur frá þessari plágu og enginn þurfi að efast um það. Mér finnst það ekki heiðarlegur málflutningur að láta í veðri vaka að við séum að bregðast skyldum okkar. Mínir menn í landbrn. og yfirdýralæknir eru mjög vakandi í þessu máli og eru nánast á vakt allan sólarhringinn til að verjast en þetta snýr ekki að þeim einum. Þetta snýr að fleiri aðilum eins og komið hefur fram í dag, tollstjóraembættinu og fleirum. Mér finnst að allir séu tilbúnir til samstarfs um þetta og ekki síst íslenska þjóðin.