Innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:01:15 (5955)

2001-03-26 16:01:15# 126. lþ. 97.1 fundur 412#B innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það sem gerði það að verkum að mér hljóp hér kapp í kinn var að hv. þm. sagði að ekki væri tekið á þessu máli af þeirri alvöru sem þyrfti. Ég vona að á þessu máli sé tekið af þeirri alvöru. Ég hef fundið mikinn vilja hér í þinginu og í ríkisstjórninni. Allir þeir sem að þessu máli hafa komið hafa hvatt til að allt verði gert sem hægt er. Mér finnst það stór orð að koma hér upp og halda því fram að við séum ekki að þessu í fullri alvöru. Við það er ég ósáttur og harma þau ummæli.

Ég skil auðvitað hug hv. þm. og veit að hann vill vel. En menn eiga samt ekki að segja slíkt til að reyna að veikja þær varnir og þá menn sem standa í harðri baráttu dag og nótt til að verja landið fyrir þessari plágu.