Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:22:38 (5962)

2001-03-26 16:22:38# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Því er haldið fram og vitnað í Þjóðhagsstofnun að horfur í efnahagsmálum séu óvissar. Ég man ekki eftir því að horfur í efnahagsmálum hafi ekki verið óvissar. Auðvitað eru þær það alltaf vegna þess að menn eru að fást við þætti sem eru svo margbreytilegir að ekki er nokkur leið að segja fyrir um þá með vissu, enda byggja þeir á endanum á því hvernig mannleg hegðun reynist.

Sannleikurinn varðandi þessa þjóðhagsspá er auðvitað sá að í aðalatriðum er spáin hagstæðari en fyrri spá frá því fyrir þremur mánuðum að því er varðar verðlagsþróun, hagvöxt, atvinnustig og ríkisfjármál. Viðskiptahallinn er hins vegar vandamál.

Ef menn skoða hins vegar þær tölur sem hér eru reiddar fram sést auðvitað, t.d. miðað við síðustu tölur frá því í febrúarmánuði, að almennur innflutningur hefur farið minnkandi fimm mánuði í röð. Almennur innflutningur síðustu tólf mánuði hefur minnkað um 3% að raungildi. Og mikið af þeim innflutningi sem við erum að tala um í sambandi við rekstrar- og fjárfestingarvörur er bundinn tilteknum verkefnum sem er að ljúka. Flugstöðin í Keflavík er eitt dæmi, Vatnsfellsvirkjun er annað dæmi, Smárinn í Kópavogi er þriðja dæmið. Við sjáum fram á að það er margt sem bendir til þess að úr þessum innflutningi dragi. Við sjáum önnur dæmi um að þenslan er að minnka í þjóðfélaginu. Veltubreytingar sýna það, skatttekjur, þróun skatttekna eins og forsrh. rakti, innflutningstölurnar sýna það, útlánaaukningin í bankakerfinu o.s.frv. Ég bendi á að bílainnflutningur hefur minnkað um 30% á tveimur mánuðum. Og útflutningur mun væntanlega aukast þegar svigrúm gefst til þess að auka fiskveiðikvótana og fleira í því efni.

Með öðrum orðum: Það er engin ástæða til að örvænta út af þessum upplýsingum. Það er engin ástæða til að ,,fara í kerfi`` eins og krakkarnir segja, eins og hv. formanni Samfylkingarinnar hættir til með reglulegu millibili út af þessum málum. Við getum síðan rætt um hvernig á að standa að framtíðarskipulagi mála, en ekki er tilefni til þess við þessa umræðu.