Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:30:02 (5965)

2001-03-26 16:30:02# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:30]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Athyglisvert er að meðan viðskiptahallinn hefur verið svo mikill sem hann hefur verið skráður, þá hefur nettóstaða þjóðarbúsins hvergi nærri versnað í takt við þennan mikla viðskiptahalla. Ástæðan er sú að erlendis hefur verið mikil eignamyndun í verðbréfum. Eins hefur verið mikil eignamyndun hjá íslenskum aðilum erlendis sem kemur hvergi fram í þeim skráðu tölum sem mynda viðskiptahallann og skuldir og eignir erlendis. Einnig er athyglisvert að lánshæfismat þjóðarbúsins, bæði í heild og eins bankastofnananna, hefur verið frekar að skána ef eitthvað er þannig að þessi mikli viðskiptahalli virðist ekki vera erlendum lánardrottnum jafnmikið áhyggjuefni og sumum öðrum.

Engu að síður þarf að sjálfsögðu að hafa áhyggjur af því þegar viðskiptahalli myndast og erlendar skuldir eru að vaxa. Það sem skiptir mestu máli er að efla atvinnulífið, auka alþjóðavæðingu þess, efla útflutninginn. Það mun að sjálfsögðu skila þjóðinni fram á veginn og bæta lífskjör hennar. Þess vegna væri mjög ánægjulegt ef það skyldi koma fyrir þegar frv. eru til meðferðar í þinginu, sem er til þess fallin að styrkja atvinnulífið, þá sé þeim fagnað af stjórnarandstöðunni og væri það meira í takt við málflutning hennar í dag.

Varðandi lausatök á efnahagsmálunum 1998 og 1999, sem oft er vitnað til, að ekki skyldi vera dregið meira eigið fé út úr FBA og að ekki skyldi vera selt hlutafé úr Búnaðarbankanum, þá verð ég að segja að ég minnist þess ekki að stjórnarandstaðan hafi haft nokkrar einustu tillögur í þá átt á sínum tíma.

En það sem skiptir máli er að ég held að verðbólguspá Þjóðhagsstofnunar sé helst til há og það muni ganga betur í efnahagslífinu á þessu ári en verið er að ræða um.