Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:37:29 (5968)

2001-03-26 16:37:29# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:37]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum, sem er 567. mál þingsins, á þskj. 873. Frv. lýtur að breytingum á rekstrarumhverfi sparisjóðanna.

Sparisjóðir hafa víða mjög sterka stöðu í Evrópu. Í sex ríkjum Evrópu eru sparisjóðir með yfir 30% hlut í innlánum í bankakerfinu og allt upp í 50%. Hér á landi er hlutdeild sparisjóðanna um 23%. Sparisjóðir eru mjög ólíkir að uppbyggingu og rekstrarformi. Þeir geta t.d. verið í formi sparisjóða með svipuðum hætti og þekkist hér á landi, eins og á Spáni, í Noregi og Danmörku, byggingarsamvinnufélaga í Bretlandi, fylkisbundinna sparisjóða með ábyrgð viðkomandi sambandsríkis í Þýskalandi eða reknir í hlutafélagsformi, svo sem á Ítalíu, í Danmörku, Hollandi og Bretlandi.

Það er ekki rekstrarformið sem sameinar sparisjóði heldur miklu frekar áherslur þeirra og markaðssetning. Sparisjóðir eru fyrst og fremst lítil og staðbundin þjónustufyrirtæki. Hið takmarkaða starfssvæði sparisjóðanna gerir þeim kleift að veita viðskiptavinum persónulega þjónustu. Stefnan er mótuð heima í héraði en ekki í fjarlægð þar sem þekking á staðbundnum aðstæðum er takmörkuð. Þetta er talin vera ein af helstu ástæðum fyrir velgengni sparisjóða í Evrópu. Smæð sparisjóða gerir þeim nauðsynlegt að hafa nána samvinnu sín á milli. Yfirleitt er það sérstakt fyrirtæki sem sparisjóðirnir reka sameiginlega sem sinnir stærri lántökum, upplýsingatækni og fleiri þáttum þar sem hagkvæmni stærðar er mikil. Sparisjóðir einstakra landa eru einnig yfirleitt með sameiginlegt merki og markaðssetning er að hluta mótuð í samvinnu.

Eitt einkenni sparisjóða er að þeir sinna heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í ríkari mæli en viðskiptabankar. Smæð flestra sparisjóða gerir þeim erfitt fyrir að þjónusta stærstu fyrirtæki. Sparisjóðir hafa tilheigingu til að taka minni áhættu en viðskiptabankar og innlán eru stærri hluti fjármögnunar en hjá viðskiptabönkum.

Á síðasta áratug hafa sparisjóðir í Evrópu staðið frammi fyrir meiri breytingum á starfsumhverfi en áratugina þar á undan. Þeir hafa orðið að bregðast við opnun hólfa á milli einstakra tegunda fjármálafyrirtækja sem meðal annars hefur gefið sparisjóðum færi á að breikka þjónustusvið sitt og stækka starfssvæðið. Þetta hefur leitt til mun meiri samkeppni en áður hefur þekkst á fjármagnsmarkaði. Víða hefur öflun nýs eigin fjár með samkeppnishæfum hætti verið helsta vandamál sem sparisjóðir hafa staðið frammi fyrir. Lausnir sem mótaðar hafa verið eru í fyrsta lagi að breyta rekstrarforminu í hlutafélag, í öðru lagi að leyfa útgáfu nýrra tegunda af bréfum sem unnt er að selja á markaði, í þriðja lagi að breyta eignasamsetningu og í fjórða lagi að selja eignir. Umræða um framtíð sparisjóðanna á nútímafjármagnsmarkaði hefur að miklu leyti snúist um það hvort sparisjóðirnir geti viðhaldið séreinkennum sínum á þessum breyttu tímum eða hvort nýir tímar kalli á breytta hugmyndafræði sparisjóðanna.

Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði. Stofnuð hafa verið hlutafélög um rekstur og starfsemi ríkisviðskiptabankanna, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, þeir skráðir á markaði og einkavæddir að hluta. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tóku til starfa á grunni rótgróinna fjárfestingarlánasjóða. FBA hefur síðan verið einkavæddur og sameinast Íslandsbanka hf. Það má leiða rök að því að sparisjóðirnir standi frammi fyrir virkari samkeppni en áður. Framangreindar breytingar hafa því áhrif á samkeppnisstöðu sparisjóðanna.

Sparisjóðirnir hafa í lengri tíma haft hærra eiginfjárhlutfall en viðskiptabankarnir. Á síðustu árum hafa sparisjóðirnir vaxið hratt og eiginfjárhlutfall þeirra lækkað. Frá sjónarhóli sparisjóðanna var eðlilegt að auka eignir sínar til að nýta eigið fé betur og taka virkari þátt í harðri samkeppni á markaðnum.

Lengst af hefur öflun nýs eigin fjár ekki verið vandamál hjá íslenskum innlánsstofnunum. Með stækkandi markaði, alþjóðavæðingu og harðnandi samkeppni hefur þörfin á eigin fé orðið brýnni. Það er því orðin forsenda þess að samkeppnisstaða innlánsstofnana verði raunverulega jöfnuð að þær standi jafnfætis þegar kemur að möguleikum á öflun eigin fjár.

Í frv. er því lagt til að sparisjóðir fái heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Hins vegar eru ekki allir sparisjóðir það stórir að geta boðið út hlutabréf sem ganga kaupum og sölum á markaði. Hlutafélög þurfa að vera nokkuð stór til að hægt sé að búast við að virkur markaður geti myndast með hlutabréfin og kostir þessa rekstrarforms nýst þannig sem best. Vísbendingar eru um það að markaðsvirði félags þurfi að nema nokkrum milljörðum króna um þessar mundir til að skynsamlegt sé að skrá það á aðallista Verðbréfaþings Íslands. Aðrir markaðir eru hins vegar fyrir hendi eða eru að koma upp þar sem búast má við að virk viðskipti geti orðið þó markaðsvirði sé lægra. Af þessu má hins vegar ráða að hlutafélagaleiðin hentar ekki öllum sparisjóðum.

Hve margir sparisjóðir geta nýtt sér kosti hlutafélagsformsins er ekki hægt að segja til um en miðað við stærð íslenskra sparisjóða er það mikill minni hluti þeirra 25 sjóða sem starfandi voru í lok árs 2000. Ekki er heldur víst að allir þeir sparisjóðir sem gætu nýtt sér kosti hlutafélagsformsins kjósi að gera það. Því er ekki gott að segja til um það fyrir fram hvaða áhrif frumvarpið muni hafa á sparisjóðina. Einn möguleiki er sá að frumvarpið flýti fyrir sameiningu sparisjóða og sameinaðir sparisjóðir breyti rekstrarformi sínu.

Af reynslu nágrannalandanna má draga þá ályktun að ekki verði margir sparisjóðir reknir í formi hlutafélaga hér á landi. Í Danmörku hafa um tíu sparisjóðir nýtt sér heimild til að breyta sér í hlutafélag. Þeir sem hafa breytt rekstrarformi sínu eru fyrst og fremst stærstu sparisjóðirnir. Í Noregi hafa um 25 sparisjóðir gefið út sparisjóðshlutabréf sem ganga kaupum og sölum á markaði og í þeim hópi eru allir stærstu sparisjóðirnir. Í bæði Danmörku og Noregi eru tugir lítilla og meðalstórra sparisjóða sem starfa staðbundið, hafa yfir að ráða nægu eigin fé og hafa ekki áhuga á að gefa út markaðsverðbréf.

Hvort litlir og meðalstórir íslenskir sparisjóðir geta lifað af harðnandi samkeppni eða hvort þeim reynist nauðsynlegt að auka samvinnu sín á milli eða sameinast mun tíminn leiða í ljós. Í frumvarpinu eru hins vegar mikilvæg nýmæli þar sem reynt er að bæta stöðu þeirra sparisjóða sem líklegt má telja að hafi ekki hug á hlutafélagsforminu. Markmiðið er að gera stofnfjárbréf að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti. Það er gert með því að auðvelda stofnfjáreigendum að selja bréf sín og með því að auka arðsvon af bréfunum. Með þeim breytingum sem lagðar eru til á ákvæðum laganna um stofnfjárbréf ættu þau að verða betri fjárfestingarkostur með góðri ávöxtun en minni áhættu en hlutabréf.

[16:45]

Ég vil þá víkja stuttlega að helstu atriðum frv. En þau eru:

1. Starfandi sparisjóðum er veitt heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag. Við þessa breytingu halda sparisjóðir starfsleyfi sínu.

2. Breytingar eru gerðar á ákvæðum um stofnfjárbréf sparisjóða í því skyni að gera bréfin að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti.

3. Í stað þess að sveitarfélög eða héraðsnefndir tilnefni tvo stjórnarmenn af fimm í sparisjóði er heimilt að kveða í samþykktum á um að stofnfjáreigendur kjósi alla fimm stjórnarmenn sparisjóðs.

Hvað varðar hlutafélagavæðingu sparisjóða eru helstu ákvæðin eftirfarandi:

Sparisjóður sem breytt er í hlutafélag er áfram sparisjóður í skilningi laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Ákvæði hlutafélagalaga og ákvæði um hlutafélagsbanka eiga við um sparisjóðinn eftir því sem við getur átt.

Stofnfjáreigendur fá eingöngu hlutafé sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Þó geta þeir krafist þess samkvæmt hlutafélagalögum að stofnfjárbréf þeirra verði innleyst. Skal samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnfé nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins samkvæmt mati óháðra aðila sem miðast við sama tímamark og breytingin á rekstrarformi sparisjóðsins.

Sá hluti hlutafjár sparisjóðsins sem ekki gengur til stofnfjáreigenda skal verða eign sérstakrar sjálfseignarstofnunar. Megintilgangur hennar er að stuðla að vexti í starfsemi sparisjóðsins og viðgangi hans.

Fulltrúaráð sjálfseignarstofnunarinnar, sem í skulu eiga sæti allir stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði er honum var breytt í hlutafélag, skulu kjósa í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar.

Einstökum hluthöfum er aldrei heimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði sem breytt hefur verið í hlutafélag. Þetta er sama takmörkun og gildir um sparisjóði í gildandi lögum. Heimilt er að kveða á um í samþykktum að sjálfseignarstofnunin geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni.

Hvað varðar breytingar á ákvæðum um stofnbréf, eru helstu ákvæðin eftirfarandi:

Stofnfjáreigendum er auðveldað að selja stofnfjárbréf. Stjórn sparisjóðs er heimilt að innleysa stofnfjárhlut í sparisjóði að beiðni stofnfjáreiganda.

Heimilt er að ráðstafa allt að 10% af hagnaði hvers árs til hækkunar á stofnfé sjóðsins þó þannig að hækkun stofnfjár, að undanskyldu endurmati vegna verðlags, verði aldrei meiri en 5% á ári.

Heimilt er að greiða arð þó tap sé á rekstri sparisjóðs.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.