Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 18:11:15 (5990)

2001-03-26 18:11:15# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[18:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er það sem ég reikna með að hv. efh.- og viðskn., sem fær þetta mál til umfjöllunar, fari í gegnum hvort hægt sé að skylda sjálfseignarstofnanir til að selja féð en þá er eftir sem áður vandamálið, hvað eigi að gera við andvirðið í sjálfseignarstofnuninni. Á þá að útdeila því fé í menningu og líknarfélög og eftir hvaða reglum? Er það stjórnin sem ákveður það? Ég hefði töluverðar efasemdir um það þegar menn færu að deila út fé sem þeir eiga ekki jafnvel þó að það sé til menningar og líknar því að það er eins og ég gat um hægt að láta leikfélag sem sonur minn eða dóttir mín er að setja á laggirnar, það er hægt að setja þar inn heilmikla peninga. Allt er þetta mjög viðkvæmt vegna þess að þetta er fé sem enginn á.