Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 18:22:16 (5997)

2001-03-26 18:22:16# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[18:22]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það hafi ekki komið fram nein rök fyrir þeim ályktunum um sjónarmið einstaklinganna í málinu sem hv. þm. nefndi. Ég held reyndar að hv. þm. hafi ekki kynnt sér nægilega vel hvernig það kom til að ákveðnir einstaklingar urðu stofnfjáreigendur í sparisjóðunum. Í byrjun voru þeir flestir ábyrgðarmenn án þess að hafa nokkurn minnsta hag eða hagsvon af starfi sparisjóðanna. Því var breytt þegar lög voru sett sem gerðu þeim mögulegt að verða stofnfjáreigendur. Þeir hafa aldrei fram að þessu haft sambærilegan rétt á við hluthafa í hlutafélögum. Velji sparisjóður að fara þessa leið þá gæti það orðið, en ekki fyrr. Ég verð að ítreka að ég hef hvergi nokkru sinni séð nokkurn þann gjörning sem rökstyður það sem hv. þm. hefur hér sagt.