Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:28:53 (6047)

2001-03-27 17:28:53# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:28]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í fyrri hluta þessarar umræðu tók ég til máls og vakti upp nokkrar spurningar um framtíð þess mikla fjár sem enginn á og lýsti því jafnframt að ég hefði alltaf ímugust á fé sem enginn ætti.

Það sem ég vakti þar upp var að þessi sjálfseignarstofnun mun í flestum tilfellum eiga um 90% af eigin fé sparisjóðanna, einhverja 15--20 milljarða ef við reiknum með því að markaðsverðið sé dálítið meira en eigið fé sem eru 10 milljarðar.

Það sem ég spurði þar um og velti upp var að stofnfjáreigendur, sem mynda við breytinguna fulltrúaráð fyrir þessa sjálfseignarstofnun, stjórna þessu fé. Þeir eiga það ekki, en þeir stjórna því. Vegna þess hversu mikla hagsmuni er um að ræða óttaðist ég að eðlileg sjónarmið, t.d. hreinlega að græða, kynnu að víkja fyrir öðrum sjónarmiðum eins og því að fá ódýr lán. Þar sem um er að ræða einn aðila sem á svo stóran hlut og samkvæmt því frv. sem við erum að ræða um getur haft atkvæðismagn í hlutfalli við eign sína, þ.e. 90%, þá óttaðist ég --- þetta er engin persónugerving á þeim mönnum sem starfa þar í dag --- að þarna kynnu að koma fram önnur sjónarmið en arðsemissjónarmið.

Ég spyr hv. þm.: Hvaða sjónarmið munu þeir menn sem stýra og hafa vald til að stýra þessu mikla fjármagni hafa gagnvart arði þegar þeir hafa ekki eignarhald á fjármagninu en ráða því samt?