Steinsteypa til slitlagsgerðar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 13:35:33 (6073)

2001-03-28 13:35:33# 126. lþ. 101.1 fundur 535. mál: #A steinsteypa til slitlagsgerðar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GE
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[13:35]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. samgrh.

Þann 4. júní 1996 var svohljóðandi þáltill. samþykkt, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna möguleika á aukinni notkun steinsteypu til slitlagsgerðar á vegum þar sem álagsumferð er mikil og við flugvallagerð. Könnunin nái til nýlagningar og endurnýjunar slitlags og verði lokið á árinu 1997.``

Nú er spurningin: Hvernig gengur með þessa könnun?

Herra forseti. Ég hef lítið orðið var við notkun steinsteypu við umræddar vegaframkvæmdir eða verkframkvæmdir á vegum ríkisins. Lítið virðist fara fyrir slagorðinu ,,íslenskt, já takk`` í tengslum við verkframkvæmdir á þessu sviði, hvort sem um er að ræða Vegagerðina, flugmálayfirvöld eða Reykjavíkurborg sem ásamt framantöldum moka út gjaldeyri til kaupa á erlendum slitlagsefnum sem leiða til mikillar mengunar frá malbiki og tjöruefnum með öllu sem því fylgir, svo sem staðfest hefur verið í svari frá fyrrv. umhvrh., Guðmundi Bjarnasyni.

Mér virðist að tæknimenn umræddra aðila séu einhvers konar malbiksmeistarar. Sérstaklega vitna ég til þess að Vestfjarðagöngin gáfu möguleika á steinsteypu vegna legu þeirra og einnig vegna þess að steypan bauðst á sambærilegu verði og malbikið.

Með þáltill. var á sínum tíma lagður fram rökstuðningur fyrir notkun steinsteypu til slitlagsgerðar og viðgerða. Fróðlegt væri að heyra hjá hæstv. ráðherra dæmin af slæmri reynslu af notkun steinsteypu í vega- og gatnagerð, svo vitnað sé til orða hans í óundirbúnum fyrirspurnum fyrir skömmu. Spurningar þær sem um er rætt liggja fyrir. Það er óþarfi að margtyggja þær upp. Ég bíð spenntur eftir að fá uppýsingar um hvað er fram undan og hvað hefur verið gert í þessum málum að undanförnu.