Steinsteypa til slitlagsgerðar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 13:38:07 (6074)

2001-03-28 13:38:07# 126. lþ. 101.1 fundur 535. mál: #A steinsteypa til slitlagsgerðar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ráðuneytið leitaði til Vegagerðarinnar um upplýsingar vegna þeirra fyrirspurna sem hér er mælt fyrir.

Fyrri liður spurningarinnar hljóðar svo:

Hversu margir kílómetrar af steyptu slitlagi hafa verið lagðir síðan þingsályktun um notkun steinsteypu til slitlagsgerðar á samgönguleiðum var samþykkt 4. júní 1996?

Í téðri þingsályktun Alþingis segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna möguleika á aukinni notkun steinsteypu til slitlagsgerðar á vegum þar sem álagsumferð er mikil og við flugvallagerð. Könnunin nái til nýlagningar og endurnýjunar slitlags og verði lokið á árinu 1997.``

Vegagerðin hefur ekki lagt slitlag úr steinsteypu eftir samþykkt þáltill. Á hinn bóginn létu Vegagerðin og Sementsverksmiðjan vinna allviðamiklar skýrslu á árunum 1996--1997 um hagkvæmnissamanburð á malbikuðum og steinsteyptum slitlögum í vega- og gatnagerð. Stofnkostnaður steyptra vega er meiri en malbikaðra eins og kunnugt er.

Í skýrslunni er heildarkostnaður, þ.e. stofn- og viðhaldskostnaður, reiknaður yfir 40 ára tímabil. Þar kemur fram að fyrir 5 þús. bíla umferð á dag er mikill munur á núvirði heildarkostnaðar vegarins en þó er steinsteypan enn þá heldur dýrari. Í framhaldinu hefur verktökum verið gefinn kostur á því að bjóða bæði í steypu og malbik á tveimur vegköflum á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. á tvöföldun Reykjanesbrautar í Kópavogi og tvöföldun hringvegar um Grafarholt að Víkurvegi. Í báðum tilvikum varð malbik ofan á, enda má segja að hvorugur kaflinn sé ákjósanlegur fyrir steypt slitlag þar sem um er að ræða stutta kafla með gatnamótum með breytilegu þversniði.

Rétt er að geta þess að gott tækifæri gefst til samanburðar á þessum tveimur tegundum slitlaga þegar fyrsti áfangi tvöföldunar Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar verður boðinn út. Er miðað við að gefa kost á báðum möguleikum í því útboði. Vegagerðin býður nú út styrkingar á vegköflum um allt land og er þá verktökum heimilt að bjóða bæði í festun með asfalti og sementi.

Að lokum má geta þess að árið 1997 var stofnað fyrirtæki Steinvegur ehf. Aðaltilgangur félagsins er að stuðla að gerð steyptra slitlaga í vegi og götur. Eigendur fyrirtækisins eru Íslenskir aðalverktakar hf., Björgun, BM Vallá, Steypustöðin og Sementsverksmiðjan hf. Fyrirtækið hefur lagt steypt slitlag á Akranesi og í Kópavogi. Í gangi er rannsóknarverkefni sem hefur þann tilgang að meta ágæti steyptra slitlaga sem Steinvegur hefur lagt.

Seinni liður fyrirspurnar hv. þm. hljóðar svo:

,,Hvað átti ráðherra við þegar hann sagði 14. febrúar sl. í munnlegu svari við fyrirspurn á 70. fundi að notkun steypu hefði ekki reynst sem vonir stóðu til? Hvaðan er sú reynsla komin að steinsteypa hafi enst illa?``

Í tilvitnuðu svari mínu kemur hvergi fram að steinsteypan hafi reynst illa. Vísað var til þess að notkun steinsteypu í slitlög hafi ekki aukist sem bendi til þess að sá kostur sé ekki jafnhagkvæmur. Rétt er að geta þess að Vegagerðin hefur gert margar tilraunir með steinsteypu á síðustu 14 árum. Á árunum 1986--1989 gerði Vegagerðin tilraun með þunnsteypt slitlög, ætluð sem ný slitlög ofan á gamla steypta vegi. Þessar tilraunir skiluðu ekki nægilega góðum árangri.

Árið 1993 var gerð tilraun með gerð sementsfestunar á burðarlagi á Hafnavegi á Suðurnesjum. Árangur af festuninni var góður. Árið 1994 var gerð tilraun á hringvegi við Smálönd í Reykjavík með hástyrkleikasteypu. Tilraunin misheppnaðist þannig að steypan sprakk og sléttleiki var ekki nægur. Árið 1995 var síðan gerð tilraun með þjappaða þurrsteypu á Nesbraut austan Höfðabakka í Reykjavík. Notuð var tækni sem þróuð var í Danmörku og kom hingað til lands verktaki frá Danmörku sem lagði steypuna með sérbúnum malbiksútleggjara. Þessi tilraun gekk ekki nógu vel. Steypan sprakk og sléttleiki var ónógur.

Að lokum gerði Vegagerðin tilraun með sementsfestun á burðarlagi á hringvegi í Langadal árið 1996. Tilraunin tókst vel. Auk þessara tilrauna voru gerðar tilraunir á nokkrum plönum í þeim tilgangi að undirbúa tilraunir á vegum. Margir aðilar komu að þessum tilraunum.

Eins og sést af þessari upptalningu hafa tilraunir með notkun steinsteypu í slitlag ekki gengið vel. Það breytir því þó ekki að steypa er fullgilt efni í slitlag. Tilraunir með festu með sementi hafa hins vegar gefið góða raun.