Steinsteypa til slitlagsgerðar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 13:44:51 (6076)

2001-03-28 13:44:51# 126. lþ. 101.1 fundur 535. mál: #A steinsteypa til slitlagsgerðar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra minntist á að við Kópavogsbúar hefðum steypt götur og það er alveg laukrétt. Þetta er einfalt reikningsdæmi. Ef umferð er komin yfir ákveðinn fjölda bíla á sólarhring þá er ljóst að það er mjög hagfellt að nota steypu í slitlög þar sem þau endast betur. Eftir 6--7 ár eru menn búnir að ná jöfnuði við malbikið og úr því fer það að borga sig.

Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að ég skil ekki tregðu Vegagerðarinnar til að steypa vegi þar sem umferð er mikil. Það er líka spurning um hve þykkt menn hafa slitlagið, hvað steypan er þykk og annað slíkt. Mér finnst einhvern veginn að Vegagerðin hafi ýtt þessu frá sér og ekki viljað þetta.