Steinsteypa til slitlagsgerðar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 13:46:46 (6078)

2001-03-28 13:46:46# 126. lþ. 101.1 fundur 535. mál: #A steinsteypa til slitlagsgerðar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GE
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Um leið vil ég staðfesta það sem hæstv. samgrh. sagði. Orð hans voru þessi nákvæmlega, með leyfi forseta:

,,Það er að sjálfsögðu vilji til þess að nota steypu en því miður hefur það ekki reynst vera eins hagkvæmt og vonir manna stóðu til.``

Hann sagði nákvæmlega þetta.

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin en ég þóttist vita fyrir fram, eins og fram kom í máli mínu, að ekki hefði mikið verið gert í þessum efnum nema að í útboði hefur verið tekið fram að heimilt væri að nota steinsteypu á móti malbiki eða klæðningu.

Upphefðin virðist koma utan að og það nægir ekki að benda á afar góða reynslu af steyptum götum á Akranesi í 40 ár, viðhaldslausar í 33 ár. Það nægir ekki að benda á mjög góðan steyptan veg upp í Kollafjörð. Ég bendi auðvitað á Reykjanesbrautina sem því miður var farið að leggja malbik yfir í staðinn fyrir að fræsa upp rásirnar og steypa í þær að nýju eins og tíðkast erlendis. Á undanförnum vetrum höfum við séð hvernig þessar rásir hafa myndast og mynda stórhættu í malbikslaginu sem liggur yfir steinsteypunni. Ég verð að segja að ég yrði ekki hissa, miðað við einarðan malbiksvilja, þó að ákvörðun yrði tekin um að nota tjöru við tvöföldun Reykjanesbrautar.

Virðulegur forseti. Ég tel að landsmenn séu að átta sig á því að steinsteypa í einingum er í reynd traustasta húsbyggingaraðferðin og hagkvæmust ef allt er skoðað. Ég spyr: Hvað ætli líði mörg ár þangað til menn áttað sig á gildi steinsteypu til slitlagsgerðar þar sem hún á við? Ég tek sannarlega undir orð hv. þm. Péturs Blöndals, þ.e. að gleymst hafi að taka tillit til neytendanna. Það tek ég undir.