Póstþjónusta

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:18:55 (6091)

2001-03-28 14:18:55# 126. lþ. 101.4 fundur 546. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Sem betur fer voru sett inn í starfsleyfi Íslandspósts þau ákvæði að skilgreina ætti grunnþjónustuna. Það hefur ekki verið gert. Það er hins vegar mjög brýnt miðað við þróun mála að sú skilgreining sé alveg ljós þannig að allir viti hvaða þjónustu þeir mega fara fram á.

Það er mikilvægt að veitt sé fagleg þjónusta við afgreiðslu og móttöku pósts. Því fleiri sem koma að þeirri þjónustu, því erfiðara verður að halda t.d. þagnarheiti. Póstþjónustan er einu sinni þannig að þar fara í gegn mjög persónulegar sendingar og ábyrgðarsendingar. Án þess að ég lýsi yfir vantrausti á starfsmenn, þá sem vinna hjá kaupfélögum og öðrum sem taka verkefnið að sér, vil ég minna á að þetta er sérhæfð þjónusta sem við eigum að gera miklar kröfur til. Það er því mjög mikilvægt að þessi skilgreining á grunnþjónustu og faglegum kröfum verði ljós.