Póstþjónusta

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:20:13 (6092)

2001-03-28 14:20:13# 126. lþ. 101.4 fundur 546. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég, ásamt mörgum öðrum þingmönnum, deili áhyggjum með hv. þm. Jóni Bjarnasyni um þessi mál. Ég vil t.d. nefna að á einum stað í Vesturlandskjördæmi, í Búðardal, er núna verið að tilkynna helmingsskerðingu á opnunartíma. Þar verður ekki hægt að koma pósti frá sér nema í fjóra tíma á dag en hins vegar verður hægt að komast í pósthólf. Þetta er gert með einni tilskipun. Starfsmenn fá hana í hendur. Ég hef áhyggjur af því að þegar gripið er til þannig hagræðingar þá sé ekki litið til þess að útvega störf á móti. Ég er sammála því að það geti þurft að hagræða. Aftur á móti verður að sjá til þess að fólk standi ekki uppi atvinnulaust eftir hagræðinguna. Ég nefni sem dæmi að þetta bréf barst til Búðardals 19. mars, bara ein tilskipun: Afgreiðslutími styttur um helming frá því sem verið hefur.