Póstþjónusta

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:21:29 (6093)

2001-03-28 14:21:29# 126. lþ. 101.4 fundur 546. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta mál upp á þinginu. Ég tek undir áhyggjur hans af því að ekki séu til skýrar og ákveðnar reglur, þ.e. gæðakröfur og þá sérstaklega hvað varðar öryggismál og póstleynd, sem ég sé ekki, virðulegi forseti, hvernig hægt er að framfylgja þegar póstafgreiðsla er komin í sjoppur eða verslanir.

Ég vil einnig benda á að í þeim 16 póststöðvum sem þegar hefur orðið á rekstrarbreyting hafa tapast hátt í 20 störf. Þau störf vinna konur. Í yfir 95% tilvika hafa þeir starfsmenn sem misst hafa vinnuna verið konur. Í öðrum tilvikum þar sem rekstur hefur verið skertur hefur það eingöngu komið niður á störfum kvenna.

Í þeim svörum sem ég fékk fyrir stuttu síðan frá hæstv. ráðherra um það hversu mörg störf hefðu tapast eru ekki taldar með ýmsar póststöðvar sem fyrirhugað er að loka og þegar búið að ræða það við starfsmenn. Þar er heldur ekki tekið tillit til þess að þjónustan hefur verið skert.