Póstþjónusta

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:22:40 (6094)

2001-03-28 14:22:40# 126. lþ. 101.4 fundur 546. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:22]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég gerði um daginn tilraun til að spyrja hæstv. byggðamálaráðherra hvort ríkisstjórnin hefði einhverja stefnu í að reyna að skapa störf í stað þeirra sem lögð eru niður. Ég fékk loðin svör og lítil hjá hæstv. ráðherra.

Nú ætla ég að gera tilraun til að spyrja hæstv. samgrh. hvort það sé einhver stefna uppi í þessu efni, hvort hann telji ekki að það þurfi að hafa slíka stefnu þannig að þar sem er verið að hagræða með þessum hætti, þegar í hlut eiga stofnanir á vegum ríkisins, þá sjái menn til þess að í tengslum við það sé hægt að skapa önnur störf á viðkomandi svæði. Ég held að það væri til fyrirmyndar ef menn hefðu það sem prinsipp að láta það ekki koma niður á atvinnulífinu þegar hagrætt er innan stofnana á vegum ríkisins.