Póstþjónusta

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:26:07 (6096)

2001-03-28 14:26:07# 126. lþ. 101.4 fundur 546. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:26]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður og ágætar ábendingar, ekki síst fyrir ábendingu frá hv. þm. Þuríði Backman sem virðist hafa farið fram hjá hv. fyrirspyrjanda, um að í starfsleyfi Íslandspósts eru kröfur um þjónustu. Ég held að menn megi ekki fara svo bratt að rjúka upp til handa og fóta og fullyrða að þjónustan sé stórlega skert, svo skert að afturkalla beri skipulagsbreytingar sem eru nauðsynlegar vegna ytri aðstæðna.

Mér er ljóst ekki síður en fyrirspyrjanda og öðrum hv. þm. að það er mjög erfitt að gera breytingar sem hafa áhrif á starfsmannafjölda, ekki síst úti á landi. Það þarf ekki að halda uppi kennslu yfir mér í þeim efnum. Ég hef sérstaklega lagt mig fram um að standa fyrir breytingum sem fjölga störfum út á landi. Ég tel mig geta talað við hv. þm. um þau mál.

Mér er fullkunnugt um að margar konur vinna í póstþjónustunni. Það tengist að sjálfsögðu ekki því hvort karl eða kona er í starfi en ég tek ekki undir það að breytingar með samningum, t.d. við Kaupfélag Skagfirðinga, sé tilefni til þess að menn gefi sér það fyrir fram, þrátt fyrir samninga og aðgerðir, að póstþjónusta í verslunarfyrirtækjum sé ófullnægjandi. Ég treysti því að Íslandspóstur standi vel að þessu og mun að sjálfsögðu fylgjast með því, að því leyti sem ráðherra getur gert en Póst- og fjarskiptastofnun sér um eftirlitið.