Viðbrögð við skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:14:39 (6116)

2001-03-28 15:14:39# 126. lþ. 101.9 fundur 578. mál: #A viðbrögð við skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina. Það má kannski fagna því að hæstv. umhvrh. skuli viðurkenna að með skýrslu IPCC sé dregið úr óvissu þeirri sem talin hefur verið ríkja um niðurstöður þeirra rannsókna sem hingað til hafa verið gerðar, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. forsrh. hamrar stöðugt á því að umhverfisverndarsamtök séu iðin við þá iðju að mála skrattann á vegginn í þessum efnum. Það er þó komið fram í dagsljósið að hæstv. umhvrh. og hæstv. forsrh. eru ekki sammála um þessi mál.

Ég vil gagnrýna hæstv. umhvrh. fyrir það að íslenska vísindanefndin sem gaf út skýrslu á vegum umhvrn. í október árið 2000 var að upplýsa íslenskan almenning á grundvelli þeirra upplýsinga sem IPCC gaf út árið 1995. Nú hvet ég hæstv. umhvrh. til þess að nýja skýrslan fái litið dagsins ljós á íslensku sem allra fyrst en að við þurfum ekki að bíða eftir íslenskri útgáfu skýrslunnar í fimm ár eins og við þurftum að bíða eftir skýrslunni frá 1995 í fimm ár.