Viðbrögð við skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:17:06 (6118)

2001-03-28 15:17:06# 126. lþ. 101.9 fundur 578. mál: #A viðbrögð við skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Það er rétt að dregið hefur úr óvissu sem skapaðist við fyrri skýrslur um þetta mál frá Sameinuðu þjóðunum. En nýjasta skýrslan segir að hægt sé að snúa þróuninni við og stöðva hlýnun andrúmsloftsins ef rétt er að verki staðið. Aðferðir og tækni til að ná þessum markmiðum eru þegar til staðar, segir í skýrslunni, og mælt er með því að ríkisstjórnir heims beiti sér í auknum mæli fyrir nýtingu vind- og sólarorku. Því vil ég hvetja til þess að þetta hafi áhrif á stefnumótun í orkumálum okkar Íslendinga. Jafnvel er talið að hitastigið á jörðinni geti hækkað um 6° sem er náttúrlega ótrúlega mikil hækkun. Menn telja að á árinu 2020 ætti að vera hægt að mæta meiri hluta orkuþarfar heimsins með vind- og sólarorku. Þannig ætti á næstu 100 árum að vera hægt að snúa þessari alvarlegu þróun við og koma lofthjúpi jarðar aftur í samt lag.

Fundur sem hæstv. ráðherra minntist á í máli sínu verður haldinn á morgun á Hótel Borg á vegum Landverndar og ég ætla að taka undir að þar verður fjallað um mjög áhugavert efni, einmitt um þessa skýrslu og loftslagsbreytingar þar. Halldór Þorgeirsson, helsti sérfræðingur okkar í þessum málum, mun þar ræða þetta mikilvæga efni.

Dregið hefur úr óvissunni og eins og orðað var á svo frægan hátt þá er vilji allt sem þarf. Ég tel að pólitískur vilji í þessu máli skipti afar miklu máli.