Einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:38:37 (6125)

2001-03-28 15:38:37# 126. lþ. 101.94 fundur 434#B einkaframkvæmd í öldrunarþjónustu (Sóltúnsheimilið)# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að hafa óskað eftir sérstakri skýrslu Ríkisendurskoðunar á samningnum um Sóltúnsheimilið. Það er rétt og eðlilegt að slík úttekt og umræða fari fram. Skýrslan er í öllum meginatriðum jákvæð. Stofnunin telur mjög vel hafa verið staðið að undirbúningi og framkvæmd útboðsins, skilgreiningar séu nákvæmar, mjög miklar kröfur gerðar til þjónustunnar, eftirlit gott og svo mætti lengi telja. Einnig kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að gerðar séu afar skýrar og markvissar kröfur gagnvart þeim sem reka munu Sóltúnsheimilið, þjónustan þar verður á háu stigi og umönnunarkröfur miklar.

Annars staðar fá aldraðir vissulega góða þjónustu, eins og ég veit að hv. málshefjandi veit. Við höfum ekki sett fram jafnyfirgripsmiklar gæðakröfur gagnvart þeim aðilum en við munum gera það í framtíðinni. Hér erum við í raun að hugsa til framtíðarinnar. Kröfurnar sem gerðar eru til Sóltúnsheimilisins skapa þær aðstæður sem aldraðir á Íslandi geta vænst í framtíðinni. Það er mikilvægt að gera þjónustusamninga við öldrunarstofnanir í landinu.

Það er rétt sem fram kemur, að samningurinn um Sóltúnsheimilið kostar um 14% meira í samanburði við þau hjúkrunarheimili sem við rekum í dag. En í þessum efnum erum við kannski að bera saman nútímann og framtíðina. Aðrir þættir sem gera þessa þjónustu dýrari en önnur hjúkrunarheimili eru eftirfarandi:

Í Sóltúni munu eiga heima veikustu einstaklingarnir sem nú eru á sjúkrahúsi.

Inntaka heimilismanna verður beint af sjúkrahúsum, ákveðin af yfirvöldum.

Kröfur eru um meiri þjónustu fagfólks en á öðrum heimilum.

Allir búa í einbýli.

Fyrirtækið er skattskylt og ber sjálft fjárhagslega áhættu af því að sinna miklum faglegum kröfum fyrir veikustu einstaklingana.

Reyndar sakna ég þess að Ríkisendurskoðun skuli ekki líka taka samanburð við öldrunarlækningadeildir og sjúkrahús sérstaklega vegna þess að kostnaður á Landakoti er nú að lágmarki 17 þús. kr. á dag og mun hærri á öðrum deildum þar sem þessir einstaklingar dvelja nú.

Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur haldið því fram að hér sé ekki gætt hagsmuna almennings. Það er alrangt. Hér er verið að gæta hagsmuna þeirra 92 vistmanna sem búa munu á Sóltúnsheimilinu. Hv. þm. hefur gert sér mikinn mat úr því að einkafyrirtæki muni græða á umönnun aldraðra. Það er hugsanlegur möguleiki en eins og bent er á í skýrslu Ríkisendurskoðunar er ekkert gefið í þeim efnum. Skilyrðin sem við setjum, kröfurnar til fyrirtækisins eru afar strangar. Mér finnst marklaust að ræða málið á þessum nótum hér og nú, áður en nokkuð liggur fyrir í þessum efnum.

Því má svo bæta við að fyrirtæki í einkarekstri greiðir skatta og skyldur ef vel gengur og mun það að sjálfsögðu líka gilda um Öldung.

Virðulegi forseti. Ég hef sagt opinberlega að fyrir fram hafi ég ekki haft trú á að einkaaðilar gætu rekið samfélagsþjónustu á borð við hjúkrunarheimili fyrir lægri upphæð en hið opinbera gerir nú. Ég stend við þær yfirlýsingar mínar. Þeir eru hins vegar til sem halda öðru fram. Það er svo sem engin frétt og það er almennur ágreiningur um þessa hugmyndafræði í samfélaginu.

Ég lít ekki á Sóltúnsheimilið sem stefnubreytingu eða nýtt upphaf í heilbrigðisþjónustu. Mér finnst mikilvægast í þessu máli að móta gæðakröfur fyrir hjúkrunarheimili til framtíðar. Mér finnst líka mikilvægt að láta á það reyna hvort aðrar leiðir, aðrir kostir séu betri en þeir kostir sem gefast í dag. Nú sjáum við það svart á hvítu í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þetta heimili.

Virðulegi forseti. Einkaframkvæmd af því tagi sem Sóltúnsheimilið telst til hefur ekki í för með sér þá mismunun sem felst í einkarekstri þar sem tekjur og eignir manna ráða því hvaða þjónustu þeir fá. Það er alveg skýrt í samningnum við Öldung að þar eiga allir sama rétt. Þar eiga fyrst og fremst rétt aldraðir sem eru sjúkir og liggja á sjúkrahúsum í dag.