Norrænt samstarf 2000

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 16:23:35 (6204)

2001-03-29 16:23:35# 126. lþ. 102.3 fundur 571. mál: #A norrænt samstarf 2000# skýrsl, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[16:23]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Á síðasta ári fór Ísland með formennsku í Norðurlandaráði. Það kom í hlut þeirrar sem hér talar að gegna forsetaembætti Norðurlandaráðs. Hlutverk forseta er einkum að leiða og samhæfa störf forsætisnefndar, stjórna fundum nefndarinnar og ekki síst að koma fram fyrir hönd Norðurlandaráðs gagnvart öðrum alþjóðastofnunum. Þá hefur forseti mikilvægu hlutverki að gegna varðandi stefnumótun í málefnum skrifstofu Norðurlandaráðs, auk þess að vinna náið með framkvæmdastjóra skrifstofunnar. Forseti sótti fjölmarga fundi og ráðstefnur erlendis fyrir hönd Norðurlandaráðs en allur kostnaður af störfum forsetans er greiddur af skrifstofu ráðsins.

Eitt af fyrstu verkum forseta var að eiga fund með Marianne Jelved, formanni norrænu ráðherranefndarinnar, í Kaupmannahöfn í lok janúar. Þar var einkum rætt um störf aldamótanefndar og fjárlagagerð fyrir árið 2001. Ljóst var að veruleg endurskoðun á uppbyggingu fjárlaganna stóð yfir og mátti vænta þess að tillögur yrðu bornar fram um einhvern niðurskurð á fjárframlögum til einstakra stofnana og verkefna. Þá var rætt um skipulag Norðurlandaráðsþings í Reykjavík og hugmyndir ráðherranefndar um ný norræn verðlaun til aðila sem hefði skarað fram úr í málefnum innflytjenda. Skemmst er frá því að segja að forsætisnefndin hafnaði tillögu ráðherranefndarinnar hvað það varðar.

Dagana 2.--4. mars fór forseti í opinbera heimsókn til Eistlands og átti m.a. fundi með Anders Tarand, formanni utanríkismálanefndar eistneska þingsins, og forsætisnefnd Eystrasaltsþingsins auk þess að kynna sér störf upplýsingaskrifstofu Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar í Tallinn sem stýrt er af Kalli Klement. Meðal þess sem fram kom var að upplýsingaskrifstofan er töluvert mikið notuð og greinilegt Eistar hafa mikinn áhuga á Norðurlöndunum.

Forseti tók þátt í vorþingi Benelux-þingsins sem haldið var í Haag í Hollandi dagana 17.--18. mars. Fyrir upphaf þingsins átti forseti fund með forsætisnefndum Benelux-þingsins og Eystrasaltsþingsins og var m.a. rætt um megináherslur hverrar stofnunar fyrir sig komandi missiri. Að fundinum loknum var þingið sett. Í upphafi þess ávarpaði forseti Norðurlandaráðs þingið og fór yfir sjónarmið og áherslur Norðurlandaráðs á hina ,,norðlægu vídd`` í Evrópusambandinu, mikilvægi svæðasamstarfs og umhverfisverndar.

Í lok apríl var forseti viðstaddur opnun víkingasýningarinnar í Washington. Þá sótti forseti ásamt nokkrum fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs 16. þing Eystrasaltsþingsins sem haldið var í Tartu í Eistlandi 25.--27. maí. Þá tók forseti þátt í ráðstefnu um efnahagsmál sem haldin var í St. Pétursborg í Rússlandi 13.--17. júní og flutti þar ávarp auk þess að taka þátt í hringborðsumræðum. Í júlí sótti forseti þing Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem haldið var í Búkarest 6.--10. júlí. Um miðjan júlí fór forseti fyrir sendinefnd Norðurlandaráðs sem tók þátt í hátíðahöldunum í Brattahlíð á Grænlandi ásamt því að taka þátt í menningarráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var í Qaqortoq. Í september tók forseti ásamt nokkrum fulltrúum Norðurlandaráðs þátt í ráðstefnunni Barn Forum II sem haldin var í Tallinn í Eistlandi.

Í byrjun október fór forseti ásamt forsætisnefnd Norðurlandaráðs í opinbera heimsókn til Moskvu þar sem nefndin átti fundi með Seleznev, forseta Dúmunnar, og síðar Chilingarov, varaforseta Dúmunnar. Á fundi með varaforsetanum var því m.a. skýrt komið á framfæri við forsætisnefndina að Rússar óskuðu eftir beinni aðild að Norðurlandaráði. Þá fundaði sendinefndin með Stroev, forseta sambandsráðsins, Avdeev, fyrsta varautanríkisráðherra Rússlands, Rogozin, formanni utanríkismálanefndar Dúmunnar, og átti að lokum fund með Pivnenko, formanni fastanefndar Dúmunnar um norræn málefni. Í byrjun desember sótti forseti Norðurlandaráðs svo 17. þing Eystrasaltsþingsins sem haldið var í Vilnius í Litháen 7.--9. desember. Þar hitti hann m.a. að máli forseta litháíska þingsins, átti fund með forsætisnefnd Eystrasaltsþingsins og formanni fastanefndar sem fer með norræn málefni. Þá fór forseti nokkrum sinnum til fundar við framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs og átti fundi með embættismönnum ráðsins.

Ég hef nú stiklað á stóru í þessari yfirferð minni en það er ljóst að hápunkturinn í starfsemi Norðurlandaráðs er árlegt þing ráðsins sem á síðasta ári var haldið í Reykjavík. Skipulaging og umsjón Norðurlandaráðsþings hvílir á Íslandsdeild og alþjóðaskrifstofu Alþingis. Ekki þarf að orðlengja það að framkvæmd þinghaldsins tókst með miklum ágætum svo til þess var tekið af þátttakendum og ég vil við þetta tækifæri endurtaka þakkir til starfsfólks Alþingis fyrir frábærlega vel unnin störf sem voru landi og þjóð til mikils sóma.

Á Norðurlandaráðsþinginu voru samþykkt stefnumið fyrir árið 2001 og þá er lögð áhersla á þróun norrænnar samvinnu, frið og öryggi í Evrópu, Norðurlönd sem forgangssvæði innan ESB, sjálfbæra þróun á Norðurlöndum, grannsvæðasamstarf og samstarf á Barents-, Norðurskauts- og Eystrasaltssvæðunum.

Síðasliðið ár var annasamt ár hjá forseta Norðurlandaráðs. Bar þar margt til. Ýmsir stóratburðir og hátíðahöld settu svip sinn á árið 2000 sem mjög lærdómsríkt og ánægjulegt var að fá tækifæri til að taka þátt í. Stærsta verkefnið sem fram undan er í starfi Norðurlandaráðs er að vinna að tillögum um framtíð norræns samstarfs sem ætlunin er að leggja fyrir 53. þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í haust. Vinnuhópur á vegum forsætisnefndar vinnur nú að tillögugerð í þessum efnum og kom saman til fyrsta fundar í síðustu viku. Sú sem hér talar á sæti í vinnuhópnum.

Norrænt samstarf stendur á gömlum merg og hefur í tímans rás verið hryggjarstykkið í alþjóðlegu samstarfi okkar Íslendinga. Það hefur að sjálfsögðu tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina til að það megi sem best þjóna hlutverki sínu. Styrkur norræna samstarfsins liggur fyrst og fremst í stöðu samstarfsins í þjóðarvitund Norðurlandabúa og hinum sameiginlega menningararfi sem tengir okkur traustum böndum. Þetta tel ég vera einstakt í alþjóðlegu samstarfi.

Við þá endurskoðun norræns samstarfs sem nú stendur yfir verða menn að hafa í huga að það er efni samstarfsins, innihaldð sjálft, sem er mikilvægast en ytri rammann verður síðan að sníða að því.

Ljóst er að þjóðir Evrópu leggja í auknum mæli áherslu á svæðisbundið samstarf og samvinna Benelúx-landanna er glöggt dæmi um þetta. Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að Norðurlöndin standi þétt saman og efli samvinnu sína á alþjóðlegum vettvangi.

Í Innansveitarkróniku Halldórs Laxness er sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá stúlku sem send var út að sækja brauð úr hver og fannst loks eftir nokkurra daga hrakninga. Brauðið hafði hún látið óskert. Löngu síðar svaraði hún aðspurð hvers vegna hún hefði aldrei brotið sér mola af brauðhleifnum: ,,Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir`` og: ,,Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?`` Þessi orð eiga vel við um dýrleika norrænnar samvinnu og er vert að hafa að leiðarljósi við endurskoðun hennar til framtíðar.

Að lokum vil ég þakka hæstv. samstarfsráðherra, Siv Friðleifsdóttur, starfsfólki Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytis, Íslandsdeild Norðurlandaráðs og starfsfólki alþjóðaskrifstofu fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði. Sérstakar þakkir færi ég Einari Farestveit sem hefur verið vakinn og sofinn í því að þjóna okkur þingmönnum sem sitjum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs.