Útbreiðsla spilafíknar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 17:42:42 (6240)

2001-04-02 17:42:42# 126. lþ. 103.3 fundur 250. mál: #A útbreiðsla spilafíknar# þál., 380. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (söfnunarkassar) frv., 381. mál: #A söfnunarkassar# (viðvörunarmerki o.fl.) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[17:42]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þetta er afar athyglisvert mál og ekki síst ef litið er til þeirra kannana sem fram hafa farið á undanförnum árum, t.d. hinnar síðustu þar sem m.a. segir að það virðist ekki vera nein ásókn í spilakassa. Það er dálítið sérkennileg niðurstaða í ljósi hinnar auknu veltu af þessum spilakössum. Ég er hér með tölur um Íslensku söfnunarkassana sem segja að árið 1997 hafi heildarvelta þeirra verið 1,1 milljarður en árið 2000 er velta Íslenskra söfnunarkassa orðin 1,4 milljarðar. Það segir dálítið um umfang þessa máls og þá vaknar spurningin: Hvernig er eftirliti hins opinbera með þessum spilakössum háttað? Í fyrsta lagi með vinningum, hvernig er vinningaskrá þessara spilakassa? Hvað taka þeir mikið? Hversu miklu er skilað til þess merka starfs sem þeim er ætlað að styrkja og hvernig er því fjármagni varið? Eins og annar hv. þm. sem hér talaði er ég sannfærður um að gæta þurfi að þessu. Ég tek undir það með hv. flm. að hér er ekkert smámál á ferðinni og það þarf að skoða af alvöru.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið að sinni vegna þess að hér hefur verið rætt um ákveðin tímamörk til þess að veita fleiri málum brautargengi á þessum þingfundi. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að hin aukna velta virðist í öfugu hlutfalli við nýjustu upplýsingar um að það sé ekki aukin ásókn í þessa spilakassa. Hins vegar er mjög aukin velta í kössunum og þar eru engar smáupphæðir á ferðinni.