Félagsleg aðstoð

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 15:53:02 (6270)

2001-04-03 15:53:02# 126. lþ. 104.25 fundur 275. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég nota réttinn til andsvara vegna þess að ég hef ekki heimild til að flytja ræðu um þetta mikilvæga mál sem ég er meðflutningsmaður að. Ég vil taka undir orð hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur í einu og öllu. Mér finnast það mjög alvarlegar upplýsingar sem koma fram í þessu bréfi sem hún hefur fengið frá Tryggingastofnun ríkisins sem stangast á við þær upplýsingar sem koma frá foreldrum þeirra barna sem eiga við vímuvanda að stríða.

Ég verð að segja að það verður að tryggja þessum foreldrum sama rétt og foreldrum langveikra barna og fatlaðra barna. Ég hef verið í sambandi við tvær mæður sem eiga bæði langveik börn og einnig börn í vímuvanda. Þær hafa sagt mér að það sé ekki minni vinna og það sé ekki minni kostnaður við vímuefnabarnið en langveika barnið. Því er það ljóst að það þarf að koma til móts við þessa foreldra með sambærilegum stuðningi frá tryggingakerfinu. Ég bíð þess að svör komi við þeim spurningum sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur lagt hér fram og mun leggja mitt af mörkum til þess að þetta mál fái afgreiðslu í heilbr.- og trn. því að það er alveg ljóst að það þarf að tryggja þessum foreldrum sambærilegan rétt. Kostnaðurinn er ekki minni og því miður hafa dæmin sýnt að oft fá þessir foreldrar ekki stuðning fyrr en börnin eru orðin alvarlega veik og komin með mjög alvarlega sjúkdóma eftir langvarandi neyslu. Það er mun affarasælla að veita þessum foreldrum stuðning strax í upphafi þannig að hægt sé að hjálpa þessum börnum í veikindum þeirra og vanda.