Réttur til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 18:29:07 (6299)

2001-04-03 18:29:07# 126. lþ. 104.34 fundur 484. mál: #A réttur til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga# (réttur til starfsheitis o.fl.) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir með öðrum þeim sem hér hafa kvatt sér hljóðs og mæla með þessu frv. Það er auðvitað svo að margt hefur breyst í háskólamálum okkar frá því að lögin nr. 27/1981 voru sett þar sem kveðið er á um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga þar sem aðeins þeir sem lokið hafa prófi úr viðskiptadeild Háskóla Íslands fá sjálfkrafa leyfi til að kalla sig þessum titlum. Nemendur úr öðrum skólum hafa þurft sérstakt leyfi ráðherra til þess.

[18:30]

Það sem hefur breyst er að komið hafa öflugir háskólar á Akureyri, í Bifröst og Viðskiptaháskólinn í Reykjavík sem eru allir mjög metnaðarfullir skólar og eru að gera góða hluti. Hvað varðar t.d. Viðskiptaháskólann á Bifröst þá hafa menn verið núna í áratug að byggja þar upp fyrsta flokks viðskiptaháskóla sem stenst alþjóðlegan samanburð í gæðum hvað varðar nám og aðstöðu. Þar standa menn hins vegar frammi fyrir því að í viðskiptanáminu er háskólinn í þeirri stöðu ásamt öðrum háskólum en Háskóla Íslands að útskrifaðir nemendur eftir þriggja ára nám hafa ekki rétt til að kalla sig viðskiptafræðinga eins og þeir sem útskrifast frá viðskiptadeild Háskóla Íslands. Hér er sem sagt verið að leggja fram frv. til að breyta þessu og ég er sammála því. Fljótt á litið hef ég örlitlar efasemdir um að færa þetta á milli ráðuneyta en það er eitthvað sem menn skoða í menntmn. og komast að niðurstöðu um en ég tel að þetta sé gott frv. og vona að það fái greiða afgreiðslu í menntmn. þingsins.