Merkingar hjólreiðabrauta

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 18:56:21 (6307)

2001-04-03 18:56:21# 126. lþ. 104.35 fundur 485. mál: #A merkingar hjólreiðabrauta# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[18:56]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Þar sem naumt er skammtaður tíminn er ekki ástæða til að lengja umræðuna, en ég hef löngun til að koma hér upp í málinu þar sem ég er einn af flutningsmönnum ásamt með hv. umhvn. Það er glæsilegt að umhvn. Alþingis skuli flytja þetta mál og það hefur sitt að segja trúlega í eftirfylgni málsins. Ég treysti því að málið fái skjóta umfjöllun í nefnd og gott brautargengi Alþingis.

En það sem mig langar til að nefna og vil að fylgi í umfjöllunina, inn í nefndina, er að hæstv. samgrh. ræddi um daginn um hjólreiðamenn og aðstöðu þeirra eða væntanlegt aðstöðuleysi á Reykjanesbraut. Í máli hans kom fram að ekki væri gert ráð fyrir því að hjólreiðamenn hjóluðu á hraðbrautum og Reykjanesbrautin tvöfölduð yrði skilgreind sem hraðbraut, og síðan væri það á ábyrgð sveitarfélaganna að gera hjólreiðastíga meðfram hraðbrautum. Það kom sömuleiðis fram í máli hæstv. ráðherra að ekki væri áætlun um það í samgrn. að búa til heildstæða áætlun um málefni hjólreiðamanna.

Ég tel að þáltill. af þessu tagi hafi það afl að hún geti breytt afstöðu hæstv. samgrh. og það er það sem ég sé fyrir mér að umhvn. geti gert, að hún geti breytt umræðunni, að hún geti með samstöðu sinni sýnt hvað það er nauðsynlegt að efla þennan þátt samgangna.