Samfélagsþjónusta

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:04:24 (6321)

2001-04-04 14:04:24# 126. lþ. 106.2 fundur 563. mál: #A samfélagsþjónusta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur fyrir að beina til mín þessari fyrirspurn um samfélagsþjónustu. Ég vil byrja á að benda á orðalagið í fyrirspurninni. Þar segir að samfélagsþjónusta sé almennt talin refsing við afbrotum. Hér á landi eru refsingar hins vegar sektir eða fangelsi. Samfélagsþjónusta telst því ekki eiginleg refsing heldur fullnustuúrræði fyrir dómþola, þ.e. honum gefst kostur á að fullnusta fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu.

Samfélagsþjónusta hefur frá upphafi verið með þessum hætti samkvæmt þeim lögum sem Alþingi hefur sett um þetta úrræði. Mér er kunnugt um að þetta fyrirkomulag samfélagsþjónustu hefur verið umdeilt, ekki síst af hálfu dómara. Ég vil því gera nokkra grein fyrir þeim rökum sem búa að baki því að skilgreina samfélagsþjónustu sem fullnustuúrræði. Í fyrsta lagi má nefna að þetta fyrirkomulag er talið ná betur því upphaflega markmiði samfélagsþjónustu að hún komi í stað fangelsisrefsingar. Í annan stað má nefna að þetta fyrirkomulag er einfaldara og ódýrara en að skilgreina samfélagsþjónustu sem refsingu.

Því hefur einnig verið hreyft að fyrirkomulag samfélagsþjónustu fái ekki samræmst 2. gr. stjórnarskrárinnar þar sem ákvörðun viðurlaga eigi að vera á hendi dómstóla. Gegn þessu hefur verið teflt þeim rökum að það sé í verkahring löggjafans að mæla fyrir um inntak refsinga og fyrirkomulag refsifullnustu. Einnig er á það bent að samfélagsþjónusta sem fullnustuúrræði sé lögbundið og hvíli á lögbundnum skilyrðum. Þá sé úrræðið ívilnandi fyrir dómþola og almennir dómstólar geti endurskoðað ákvarðanir stjórnvalda um samfélagsþjónustu.

Þrátt fyrir þær röksemdir sem ég hef rakið hér og í tilefni af þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á samfélagsþjónustu sem fullnustuúrræði hef ég ákveðið að láta fara nánar yfir gildandi reglur um samfélagsþjónustu, enda er brýnt að reglur á þessu sviði orki ekki tvímælis. Þetta verkefni hef ég falið refsiréttarnefnd en samhliða hef ég ákveðið að fram fari úttekt á því hvernig úrræðið hefur reynst í framkvæmd.

Allt bendir til þess að árangurinn af því að bjóða upp á þetta fullnustuúrræði hafi verið nokkuð góður. Nýleg rannsókn um ítrekunartíðni afbrota sýndi t.d. góðan árangur af beitingu samfélagsþjónustu sem fullnustuúrræðis. Ítrekunartíðni þeirra sem ljúka afplánun með samfélagsþjónustu er mun minni en hjá þeim sem sæta fangelsisrefsingu. Í einfölduðu máli virðist munurinn svo mikill að álit fræðimanna sem stóðu að rannsókninni var að beiting úrræðisins hefði verið afar farsæl.

Ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn. Ég tel að hér sé hreyft mikilvægu máli. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður, að ég tel brýnt að reglur á þessu sviði orki ekki tvímælis og þess vegna mun ég láta skoða þetta mál sérstaklega.