Þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:37:49 (6359)

2001-04-05 10:37:49# 126. lþ. 107.91 fundur 454#B þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:37]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þjóðhagsstofnun starfar samkvæmt landslögum. Ef breyta á starfsemi Þjóðhagsstofnunar eða leggja hana niður, þá þarf að breyta lögum. Áður en lögum er breytt þarf að fara fram umræða um málið. Ekkert af þessu ætlar hæstv. forsrh. að virða. Hann ætlar að leggja niður Þjóðhagsstofnun áður en lögum er breytt án þess að fram fari umræða við starfsmenn, án þess að fram fari umræða á Alþingi, án þess að málin séu einu sinni rædd í ríkisstjórn. Mikið er langlundargeð þitt, Framsókn. Af kurteisi nota ég ekki orðið undirgefni þótt einhverjum kunni að finnast að nú sem oftar væri tilefni til þess og undanskil ég þá í þessu máli hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, þingflokksformann Framsóknar, sem hefur gagnrýnt þetta framferði í fjölmiðlum.

Framkoma hæstv. forsrh. við starfsmenn Þjóðhagsstofnunar er slæm en þá er ekki síður alvarlegt að Alþingi skuli ekki gert kleift að ræða þingmál þar sem lagðar eru til aðrar leiðir en þær sem hæstv. forsrh. vill fara. Umgengni ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega hæstv. forsrh. við lýðræðið ætti að vera öllum áhyggjuefni, nokkuð sem stjórnarmeirihlutinn ber ábyrgð á og ber að taka á af alvöru og festu.