Húsnæðismál

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:33:44 (6447)

2001-04-05 16:33:44# 126. lþ. 107.14 fundur 623. mál: #A húsnæðismál# (kærunefnd, afskriftir, vanskil o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að mér sýnist sem allar þessar greinar frv. séu ívilnandi og til bóta og get ekki séð annað en það ætti að fá greiða afgreiðslu í félmn. því þetta eru allt saman atriði sem koma fólki til góða og nokkur atriði sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum einmitt gert að umtalsefni.

En ég kem hér upp vegna þess að ég hefði gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra hvað hann ætli að gera í sambandi við ástandið á leigumarkaðnum. Nú eru hér ágætis tillögur í frv. en við vitum að það hefur ríkt og ríkir neyðarástand í húsnæðismálum. (Gripið fram í: Næstnæsta mál á dagskrá.) Næstnæsta mál á dagskrá eru húsaleigubæturnar, ég ætlaði einmitt að koma inn á það líka þar. En engu að síður sýnist mér það mál ekki alveg koma að öllu leyti til móts við þann hóp og minni á góðar viðtökur hjá hæstv. ráðherra við þáltill. frá þingflokki og þingmönnum Samfylkingarinnar um fjölgun leiguíbúða. Herra forseti, ég geri það að umtalsefni undir þingmálinu um húsaleigubætur, ég heyri á hæstv. ráðherra að hann er í startholunum með það og tilbúinn að fara í þá umræðu á eftir þannig að ég get alveg eins tekið til máls undir þeim lið og gert að umtalsefni ástandið á leigumarkaðnum, sérstaklega í Reykjavík því þar er auðvitað afleitt ástand. Vissulega eru tillögur um úrbætur þar. Ég hefði viljað sjá ýmislegt fleira en við skulum gera það að umtalsefni undir þeim lið og þá fáum við vonandi svör frá hæstv. ráðherra varðandi þann málaflokk.

Herra forseti. Ég fagna þeim tillögum sem eru í frv. og sé að þær eru allar til bóta.